12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

214. mál, útsvör

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég skil ekki þann úlfaþyt, sem þetta hefur valdið hjá hv. þm. Barð. út af þessum l., sem þegar hafa gilt í tvö ár, og það hefur ekki verið kvartað undan þessu enn. Hér er eigi um neinar nýjar skyldur á vinnuveitendur að ræða.

Hv. þm. Barð. var að tala um að tryggja einhliða rétt. En það er ekki hægt að tala um slíkt, þegar verið er að tryggja það, að menn greiði skatta og skyldur til hins opinbera. Ef verið væri að tryggja einstökum atvinnurekendum einhvern rétt, þá væri hægt að tala um það. En að tala um einstaklingsrétt í þessu sambandi, þó að menn borgi það, sem þeim er gert að skyldu að greiða til almennra þarfa, nær ekki nokkurri átt. Út af því, sem sagt var áðan, vil ég segja það, að ég held, að það sé sagt algerlega út í loftið, að atvinnurekendur sætti sig ekki við þetta fyrirkomulag, sem þeir hafa sætt sig við, og hafa innheimt skatta til ríkissjóðs síðan 1924 og frá enn þá eldri tíma. Og ég fæ ekki skilið, að skattar til sveitasjóða eigi að hlíta nokkuð öðrum lögum eða að vera réttlægri hvað innheimtu snertir heldur en skattar til ríkissjóðs. Hvort tveggja eru þetta skattar til almennra þarfa, og það er ekki hagsmunamál einhvers einstaks í sveitarfélaginu, heldur sveitarfélagsins í heild. Ég teldi það mjög óvanalega aðferð, ef farið væri að vísa máli, sem n. hefur flutt, til n. aftur, þó að hins vegar n. mundi taka velviljaðri beiðni vel um að athuga málið á milli umr. Hitt er vitanlegt, að ef þetta frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi, þá mun óhjákvæmilegt að setja hér brbl. En satt að segja er það hálfhlálegt að setja brbl. um þetta efni í staðinn fyrir, að sett væri ákvæði í útsvarsl. með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar er fengin í framkvæmd þessarar innheimtu.