12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

214. mál, útsvör

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Ég get mjög dregið úr máli mínu, þar sem þetta hefur verið rakið af hæstv. ráðh. En ég vil benda hv. þm. Barð. og öðrum dm. á, að það hvílir á algerum misskilningi, að með þessum l. eða með l. um fjölgun greiðsludaga, þegar þeir voru ákveðnir fyrir fram, áður en búið var að jafna niður, væri lögð nokkur ný skylda á atvinnuveitendur um að halda eftir af kaupi starfsmanna sinna. Sú skylda er nú þegar í l. og var í l., áður en þessi l. voru sett á árinu 1943 og fyrri hluta þessa árs. Það er vikið að því sama í þessu frv., og það eru gerð um það skýrari og heillegri ákvæði en þegar eru, en þau fara eingöngu í þá átt að samræma fyrri 1. við þau fyrirmæli, sem eru í skattareglugerðinni varðandi innheimtu ríkisskatta. Svo að að því leyti er ekki heldur um neina nýjung að ræða. Það má segja, að nýjungin, sem hér er á ferðinni, er að lögfesta til frambúðar það atriði, sem við vitum, að hv. þm. Barð. hefur ætíð verið mikið á móti, að menn séu skyldaðir til þess að greiða hluta af útsvörum sínum, áður en búið væri að ákveða endanlega útsvarsupphæðina. Það má skoða þetta sem afgert deilumál hér í hv. d., þar sem deildin hefur hvað eftir annað samþ. þetta með yfirgnæfandi meiri hluta atkv., og reynslan hefur daglega skorið úr því, að þetta ákvæði er heppilegt. En vegna þeirrar almennu andúðar, sem hv. þm. Barð. hefur sagt, að væri gagnvart þessu atriði, hef ég beinlínis beðið starfsmenn bæjarins að fylgjast með því og láta mig vita, ef þeir yrðu varir við mikinn kurr h já greiðendum, og mun það aðeins hafa komið fyrir, að maður og maður, eða samtals í 3–4 tilfellum, léti í ljós óánægju, en allur þorri manna lætur beinlínis í ljós mikla ánægju yfir þessu og telur það mjög hagkvæmt fyrir gjaldendur og bæjarfélagið í heild. Varðandi það, að það sé verið að íþyngja atvinnurekendum með þeirri skyldu að greiða fyrir innheimtu opinberra gjalda, sérstaklega útsvara, þá vildi ég benda hv. þm. Barð. á, að því fer mjög fjarri, að þetta sé rétt, vegna þess að ef útsvör hjá launþegum og smærri gjaldendum greiðast ekki, þá er ekki nema eitt ráð til þess að bæta það upp, og það er að hækka útsvarsbyrðina á þeim stóru gjaldendum, sem hægt er að ganga að með einfaldara móti, þeim, sem hafa miklar tekjur og miklar eignir, sem hægt er að ná í. Það er þess vegna, ef svo mætti segja, beint hagsmunamál þessara aðila og hagsmunamál þeirra umfram aðra menn, að haldið sé uppi skipulegri innheimtu, svo að gjöld innheimtist hjá öllum þeim fjölda manna, sem oft hefur gengið illa að ná til nema fyrir milligöngu atvinnurekenda.

Ég held þess vegna, að það sé öllu meira áríðandi, að hv. þm. Barð. taki upp sína afstöðu til endurskoðunar en n. fari að fjalla um þetta á ný.

Hv. þm. Barð. var að tala um, að endurskoða þyrfti útsvarslöggjöfina, og er þá enginn annar vandi fyrir hv. þm. en að koma með frv. um það eða skora á ríkisstj. að taka slíka endurskoðun upp. En ég vil þó benda á það, að hér er á ferðinni frv, um breyt. á útsvarsl., og mun þá hv. þm. geta, í sambandi við það mál, sem nú er í n., tekið það til athugunar. Til þess er nægilegur tími, jafnvel þótt þetta frv. gangi greiðlega fram. Það er ákaflega leitt að þurfa að hraða þessu máli svo, að menn geti ekki áttað sig á því, en ég hygg, að slíkur starfsmaður sem hv. þm. Barð. er muni geta það, ef venjulegur tími líður á milli umræðna.

Ég verð að taka undir með hæstv. ráðh., að það er alveg einstök aðferð, ef vísa á máli aftur til n., sem n. hefur flutt. Hitt skal játað, að n. hefur ekki grandskoðað þetta frv., ekki einstakir nm., en ég get sagt fyrir mig, að ég skoðaði það rækilega og geri það eindregið að mínum till. Frv. hefur fengið óvenjulegan góðan og ýtarlegan undirbúning áður en það var lagt hér fram á þingi. Ég vil þess vegna fallast á þá till. hæstv. félmrh., að málið verði látið ganga til 2. umr. allshn. getur þá athugað málið, eftir því sem efni standa til, milli 2. og 3. umr., sérstaklega þegar á það er litið, að frv. er ekki komið nema til fyrstu umr., og þá hefur hv. þm. Barð. tíma til þess að athuga það og flytja brtt. Hinu get ég lýst yfir, að þó að frv. fari til allshn., þá beiti ég mér á móti því, að það verði sent út í bæ til umsagna, enda eru þar engar nýjar kvaðir á atvinnurekendur, sem gætu réttlætt það að tefja málið með því.