10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

214. mál, útsvör

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál. Það er tiltölulega lítið í ræðu hv. þm. Barð., sem gefur mér tilefni til þess að halda uppi löngum umr. Hann hefur á þessu nokkuð aðra skoðun en ég, og er ekkert við því að segja, og flytur hann brtt., og stafa þær af þeim ólíku sjónarmiðum, sem eru okkar á milli. Hann talaði um óeðlilega meðferð mála; þetta frv. er að rauninni stjfrv., en ekki frv. n., og er flutt að tilhlutun hæstv. dómsmrh. og undirbúið að tilhlutan hans, og ég held, að það sé komið frá bæjarstj. Ísfirðinga. Síðan hefur það verið nokkuð athugað af bæjaryfirvöldum Reykjavíkur og loks lagt fram af n. eftir beiðni hæstv. dómsmrh. Það, sem okkur hv. þm. Barð. og mig greinir á um, er aðallega þetta, að hann talar um þær miklu skyldur, sem lagðar séu á herðar kaupgreiðanda. En sannleikurinn er sá, að kaupgreiðandi gerir það langmest sjálfs sín vegna að greiða fyrir því, að þeir, sem kaup eiga að fá, greiði gjaldið, vegna þess að ef ekki nást lögmæt útsvör af þessum gjaldendum, þá er óhjákvæmilegt, að útsvarsbyrði hinna stærri fyrirtækja og fastlaunafólks verður þeim mun stærri, og þó að það þyki nokkuð óréttmætt að leggja skyldur á menn til þess jafnvel að fara eftir almennum auglýsingum um að tilkynna innheimtumönnum á bæjarskrifstofunni, hverjir eru hjá þeim í störfum, og þeir fái ekki önnur fyrirmæli um það en munnlegar, almennar tilkynningar, þá er hér um að ræða, hvort kaupgreiðendur vilja heldur hjálpa til þess, að þetta fólk borgi útsvar af kaupi sínu, eða taka á sig greiðslur á þessu sjálfir, því að þetta er oft og tíðum fólk, sem dvelst skamman tíma í sveitarfélaginu við vinnu. Ég held, að það sé miklu skynsamlegra af hálfu kaupgreiðenda að hafa samvinnu um þetta heldur en að láta þetta vera eins og það var í mörg ár hér í Reykjavík, að hér voru þúsundir gjaldenda, sem enginn henti reiður á og ekki fékkst einn eyrir frá. Þetta hefur mikið batnað eftir að það tókst að koma á samvinnu kaupgreiðenda og sveitarfélagsins, sem sett var inn með því lagaboði, sem hér hefur verið sett. Ég held þess vegna, fyrst kominn er á fastur þáttur í þessum málum, og ef menn vilja láta sér annt um hagsmuni atvinnurekenda og kaupgreiðenda, en hv. þm. Barð. heldur aðallega uppi andófi gegn því hér, þá sé bezt að halda því áfram, vegna þess að í sjálfu sér er ekki verið að spyrja um greiðslur á ábyrgð atvinnurekenda, heldur útsvarsskyldu þessara smærri gjaldenda, og þeim útsvarsskuldum verður ekki fullnægt nema með þessari samvinnu. Og þó að þessi ákvæði séu nokkuð harkaleg á pappírnum, þá finnst mér sjálfsagt, að þeim verði beitt af hófsemi, enda er það ekki svo, að hér sé um neina einræðisherra að ræða, sem farið geti sínu fram hvernig sem þeim lízt. Hér er um að ræða opinbera trúnaðarmenn sveitarfélagsins, sem eiga yfir höfði sér bæði bæjarstjórnina og svo enn fremur það, að fram fara almennar kosningar fjórða hvert ár, svo að ef þeir hegða sér með öllu ósæmilega, sé ég ekki annað en hér sé tryggilega séð fyrir því, að þetta ákvæði verði haldið. Ég hef svo ekki mikið meira um þessar aths. hv. þm. Barð. að segja, þær mótast út frá okkar mismunandi sjónarmiðum. Ég er sannfærður um, að það sjónarmið, sem ég er málsvari fyrir, er rétt og er ekki aðeins heildinni fyrir beztu, heldur einnig kaupgreiðendum. Hv. þm. Barð. telur ekki réttmætt og er á móti því, að nokkur hluti útsvarsins sé greiddur áður en búið er að fastákveða útsvarsupphæðina í hvert sinn. Þetta er atriði, sem ég hef oft heyrt áður. Alþ. er þegar búið að fallast á þann skilning, sem ég hef gerzt talsmaður fyrir. Þá sagði hv. þm., að það væri hart að lögbjóða það ekki, að bæjarstjórnir væru skyldugar til þess að sækja útsvörin til kaupgreiðenda á föstum útborgunartímum þeirra. En ég get upplýst hann um það, að það er föst venja, ef þess er óskað, að útsvarið er sótt með þessum hætti á þeim tímum, sem kaupgreiðendum hentar bezt, og er sjálfsagt, að eftir þessu verói farið í framtíðinni. En það væri vitanlega óviðeigandi að fara að taka fram í l., á hvaða klukkutíma eigi að sækja þessar greiðslur eða því um líkt, heldur eiga þar aðeins að vera ákvæði um almenna ábyrgðarskyldu. Legg ég svo til, að frv. verði samþ. með þeim tveim breyt., sem ég nefndi í minni fyrri ræðu.