10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

214. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég stóð aðeins upp til að mótmæla því, að ég sé að halda fram vörnum til óhagnaðar fyrir kaupgreiðendur, eins og hv. 6. þm. Reykv. hélt fram, því að það næst allt, sem þarf að ná, og miklu betur að mínu áliti, ef höfð er full samvinna og sýnd full sanngirni á báða bóga. Raunar getur nú hv. 6. þm. Reykv. ekki skilið þetta, og við því er ekkert að segja. En svo langt er þó komið með þessu, að hann lýsir því yfir, að nota skuli miklu mildari aðferð við þessa innheimtu, og vill hann þá máske á næsta þingi flytja með mér brtt. í þá átt að lögbjóða þá mildu aðferð til að sjá, hve góð áhrif hún hefur á þjóðina.