13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Tilgangur þessa frv. er sá, að einum merkasta andans manni og rithöfundi íslenzkum, sem nú er uppi, verði veitt færi á að sinna störfum sínum það, sem eftir er ævinnar, við sömu kjör og hann hefur notið. Frv. fer fram á það, að þegar dr. Sigurður Nordal hefur látið af prófessorsembætti því, er hann gegnir við Háskóla Íslands, verði honum gefinn kostur á að hafa áfram á hendi prófessorsembætti í íslenzkum fræðum með öllum þeim réttindum, er fylgja prófessorsembættum, en undanþeginn skal hann kennsluskyldu og ákvæðum l. um aldurshámark opinberra starfsmanna.

Prófessor Sigurður Nordal er nú 58 ára að aldri og hefur starfað í rúman aldarfjórðung við heimspekideild Háskóla Íslands. Þess eru mörg dæmi, að mönnum, er þeir hafa látið af embætti, hafi verið veitt full laun áfram, þegar þeir hafa náð þeim aldri, er l. um aldurshámark opinberra starfsmanna tilskilja; hitt er öllu fátíðara, að fyrir þann tíma sé mönnum veitt lausn frá störfum með fullum launum. Þó eru þess nokkur dæmi, og eins og í grg. segir, eru sérstaklega tveir menn, sem geti~ er um í þessu sambandi. Annað dæmið var, þegar jarðfræðingnum Þorvaldi Thoroddsen var veitt lausn frá kennarastörfum við menntaskólann og ákveðin full laun áfram, er hann. var 44 ára að aldri, en hitt dæmið er um náttúrufræðinginn Bjarna Sæmundsson, þegar honum, 56 ára að aldri, var veitt lausn frá embætti með fullum launum. Var þetta gert með það fyrir augum, að þessir menn gætu helgað vísinda- og náttúrufræðistörfum starfskrafta sína óskipta. Ég ætla, að þó að nokkur ágreiningur muni hafa verið um þessi tvö atriði í öndverðu, þá hafi reynslan sannað, að Alþ. hafi gert hið rétta í báðum þessum málum, — að Alþ. hafi gert rétt að því leyti, að þjóðinni hafi orðið mikið gagn af vísindastörfum þessara tveggja manna, sem urðu miklu meiri en þau hefðu orðið, ef þeir hefðu daglega verið bundnir við kennslustörf.

Með þessu frv. er farið fram á svipað og þau fordæmi, sem ég hef nú drepið á. Prófessor Sigurður Nordal hefur starfað rúmlega aldarfjórðung við heimspekideild Háskóla Íslands, og nú, þegar hann stendur nær sex tugum, mun það vera ósk hans að geta helgað sig óskiptan ritstörfum og fræðistörfum, án þess að þurfa að láta tefjast af daglegum kennslustörfum.

Um þennan mæta og merka rithöfund og fræðimann þarf ekki að fara mörgum orðum, þar sem um er að ræða einhvern kunnasta fræðimann og rithöfund íslenzkan, sem nú er uppi. — Árið 1912 lauk hann magistersprófi í norrænum fræðum við Hafnarháskóla, og tveimur árum síðar varði hann doktorsritgerð sína um Ólaf helga við Hafnarháskóla. Árið 1918 var hann skipaður prófessor í íslenzkum fræðum við Háskóla Íslands. Siðan hefur honum verið margvíslegur sómi sýndur; m.a. var hann gerður heiðursdoktor við háskólann í Osló árið 1938 og við háskólann í Gautaborg árið 1941. Enn fremur má geta þess, að árið 1923 var honum boðin prófessorsstaða í norrænum fræðum við háskólann í Osló, en afsalaði því embætti og hélt áfram störfum sínum við Háskóla Íslands. Þá hefur hann og flutt fyrirlestra víða um lönd, sérstaklega á Norðurlöndum, og hefur oft verið utan heil misseri við að flytja fyrirlestra. Eitt ár var hann við Harvardháskólann í Bandaríkjunum. Hefur honum á þessum ferðum sínum verið mikill sómi sýndur. — Um störf Sigurðar Nordals prófessors skal ég ekki vera fjölorður. Hann hefur skrifað mjög mörg ritverk um íslenzk fræði og menningu, og má m.a. nefna Skýringar við Völuspá, rit hans um Ólaf helga, rit um Snorra Sturluson, hið mikla rit hans, sem hann hefur unnið að á síðari árum: Um íslenzka menningu, sem ætlað er að verði í þremur bindum. Ritstjórn hefur hann haft á hendi fyrir fjöldamörg rit, eins og t.d. Fornritaútgáfuna, og séð um útgáfu íslenzkra fornrita, t.d. Egils sögu Skallagrímssonar, Borgfirðingasagna, Vestfirðingasagna og margra fl. Og auk þessa hefur hann ritað fjölda ritgerða um íslenzk fræði og heimspeki, sem nú eru að koma út í bók, sem nefnist Áfangar. Hér er og um skáld að ræða í bundnu og óbundnu máli. Sigurður Nordal mun vera einn víðfrægasti Íslendingur, sem nú er uppi. Hann sameinar bæði fræðimanninn, skáldið og listamanninn, og ætla ég, að íslenzkri menningu yrði ómetanlegur styrkur að því, ef hann fengi nú óskiptur að helga krafta sína þessu fræðistarfi. Það er ósk vor, að íslenzki Háskólinn megi verða miðstöð norrænna fræða, og það er í því skyni, sem þetta frv. er flutt hér í þessari deild.

Ég ætla, að á þetta frv. megi líta sem höfundarlaun til eins mesta fræðimanns, sem Íslendingar eiga.

Ég vil svo mælast til, að frv. þetta fái skjóta afgreiðslu og verði vísað til 2. umr. og, samkvæmt venju, til menntmn.