09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

27. mál, skipun læknishéraða

Ásgeir Ásgeirsson:

Það kom fyrir í Ed., að bætt var læknishéraði í frv., en þau héruð felld niður, sem nær stæðu að dómi heilbrigðisstjórnar og kunnugra manna og hafa brýna þörf fyrir úrlausn eins fljótt og mögulegt er, en það eru Suðureyrarhérað með læknissetri á Suðureyri og Raufarhafnarhérað með læknissetri á Raufarhöfn.

Á Suðureyri er þorp með 400 manns. Þar háttar svo til, að heiði milli Súgandafjarðar og Flateyrar, þar sem læknissetrið er, má kallast ófær á vetrum. Það má vera, að ungir menn og íþróttamenn geti komizt þar yfir, en ekki læknir kominn á roskinsár eða þótt miðaldra sé. Þá er sjóleið, fremur stutt, en þarf að fara út á rúmsjó, svo að mjög oft er engin leið fær milli þorpanna í vetrarveðrum. Heilbrigðisstjórnin hefur ekki treyst sér til að fara fram á lækni á Suðureyri, fyrr en heildarathugun yrði gerð á læknaskipuninni. Og því bjóst ég við, að það biði enn. Nú eftir breyt., sem hv. Ed gerði, virðist mér rétt að halda fram rétti staða, sem eiga hann meiri en hið nýja hérað frv.

Sama er að segja um Raufarhöfn, sem er þó enn lengra frá læknissetri, hefur mjög mikinn atvinnurekstur á sumrin og nauðsyn, að þá sé þar læknir. Við hv. þm. V.-Húnv. leyfum okkur því að bera fram við 1. gr. skrifl. brtt. í 2 liðum um ný læknishéruð, í fyrri lið um hérað með lækni á Suðureyri, í hinum síðari um hérað með lækni á Raufarhöfn.

Ég vænti þess, að þessi héruð mæti þeirri sanngirni í d., að þau verði ekki látin sitja á hakanum fyrir stöðum, sem ekki verður talið, að eigi jafnmikinn rétt.