22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Mér sýnist því miður koma í ljós, að þetta mál hafi ekki fengið slíka meðferð sem skyldi, þar sem jafnvel er komið í ljós, að hv. frsm. veit ekki, eftir hvers óskum málið er fram borið, nema hlutaðeigandi manns persónulega, og gefur aðeins lítilfjörlegar upplýsingar um það á skotspónum, hvort Háskólinn hafi haft málið til meðferðar eða ekki.

Ég álít, að hægt væri að afgreiða þetta mál frá d., án þess að bera það undir háskólaráð, ef um það eitt væri að ræða að veita Nordal lausn frá embætti með fullum launum og ekkert annað, þó að að væri ævilangt. Ég man ekki eftir, að neinn Íslendingur hafi fengið slíka löggjöf um sig nema Jón Sigurðsson forseti. En þá kom annar, sem settur er honum heldur hærra. Látum nú vera, þó að menn vilja koma þessu í framkvæmd með löggjöf, en ekki venjulegum fjárlagaákvæðum, eins og venja er til. Þá verður hæstv. Alþ. að gera það upp við sjálft sig. En þegar hæstv. Alþ. ákveður, að maður, sem starfar við ákveðna stofnun, sleppi við þær skyldur, er embættinu fylgja, og geti haldið öllum réttindum innan þeirrar stofnunar eftir sem áður, en þau geta ekki verið falin í öðru en því að hafa afskipti af stjórn Háskólans, þá er um svo mikla misbeitingu að ræða, að ég óska eftir því eindregið, að álits Háskólans verði leitað um það, áður en málið er afgreitt. Mig furðar mjög á því og hef ekki vitað aðra eins afgreiðslu, að n. Alþ. í tveimur d. skuli leyfa sér að afgreiða slíkt mál, án þess að bera það undir Háskólann. Furðulegast þykir mér þó að heyra, að n. í Ed. skuli ekki vita, hvort þetta hefur verið gert eða ekki.

Ég vildi aðeins í vinsemd margbeina til þeirra manna, sem í n. eru, — ekki sízt formannsins, — að málið verði tekið aftur til athugunar í n. og nál. gefið út á ný, að fenginni umsögn Háskólans.

Þá furðar mig einnig á því, sem hv. frsm. sagði, að hér væri um svo einstakan mann að ræða, að ekki yrði með þessu skapað fordæmi. Hann hlýtur þó að muna, að einmitt við meðferð málsins hafði bæði hann og ég talað um að skapa öðrum manni í viðbót sömu kjör, sem væri alveg eins vel, ef ekki betur, að þessu kominn en Nordal. Svo að það er ekki útilokað, að þetta gæti orðið til þess að skapa fordæmi, áður en lyki.

En jafnvel þótt þessu sé sleppt, þá er hér um svo mikið brot á stjórn Háskólans að ræða og svo óvenjulega aðferð í embættaskipun landsins, að ég tel fráleitt, að málið verði afgreitt, án þess að háskólaráð láti uppi álit sitt um þetta.

Vildi ég svo mælast til, að þessari umr. yrði frestað, og skora á hv. n. að fallast á þá meðferð málsins.