22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Ég fyrir mitt leyti get fallizt á, þar sem ósk er borin fram um það, að hv. menntmn. skjóti á fundi hjá sér að nýju um mál þetta og leiti á sérstakan hátt þess álits, sem talið er að bresti hér. Mér þykir ekkert óeðlilegt, að þetta hafi verið gert að umræðuefni, og sízt kemur mér einkennilega fyrir sjónir, þótt hv. d. vilji vita öll deili á málinu og þekkja undirstöðu þess. En mér finnst hins vegar ekki nein sérstök ástæða til að fara stórum orðum um, — þau hafa reyndar ekki verið notuð stór —, eða víta n. mjög fyrir að afgreiða málið eins og það lá fyrir og á þann hátt eins og hér er fram komið. Því að vitanlega mælir n. með frv: með höfuðtilliti til menntamannsgildis og verðleika Sigurðar Nordals. Og álitið á þeim manni verður líka aðalmælikvarði hv. d. við atkvgr. um þetta mál. Því hefur verið skotið fram af meðnm. mínum, að þetta væri fordæmi gagnvart öðrum mönnum. Ég vona, að ágætismenn við Háskóla Íslands yrðu sem allra flestir á borð við þennan prófessor. En því minna, sem gengi Háskólans verður, og því smærri menn, sem skipa þar prófessorsembættin, því minni hætta er því samfara að samþ. þetta frv. Þess vegna óska ég, að þessi hætta mætti verða mikil, en ekki lítil.

Það er nú svo, að þessi d. er síðari d., sem hefur þetta mál til umsagnar, því að málið er búið að fara gegnum hv. Nd. og ná samþ. þar. Það gefur því málinu nokkra kjölfestu, enda þótt síðari d. fari skemmra út í málið um allar upplýsingar. Það er því álitið á menntamannsgildi Sigurðar Nordals og verðleikum, sem verður prófsteinn á þetta mál hér í hv. d. og ræður úrslitum um það„ hvort frv. verður samþ. eða ekki. — En úr því að beiðni er komin fram um það, að athugað verði, eftir hvaða beiðni frv. þetta sé komið fram, hvort það sé eftir beiðni dr. Sigurðar Nordals eða eftir beiðni háskólaráðs eða hvernig frv. þetta er í heiminn komið, þá get ég verið samþykkur því, að umr. um málið verði frestað til þess að leitað verði þessara upplýsinga.