27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Benediktsson:

Það er athyglisvert atriði í sambandi við þetta frv., sem ég geri að vísu ráð fyrir, að hvorki hv. n. né núverandi fjmrh. geti svarað að svo stöddu, en mér finnst ákaflega merkilegt að fá upplýsingar um það. Í grg. við þetta frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherrann telur heppilegast, að fjármálaráðuneytinu verði, svo sem verið hefur undanfarin ár, veitt heimild til að breyta umræddum frestum og tímaákvörðunum og að heimildin verði til frambúðar.

Með því að ég tel það brýna nauðsyn, að tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur verði alls staðar á landinu löglega á lagðir 1944, en ekki sé ástæða til að svo stöddu að láta heimildina ná lengra en til álagningar skatta árið 1944, gef ég út bráðabirgðalög samkvæmt 23. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið:“

Þetta sýnist vera umsögn herra forsetans, hann hefur þá víst verið ríkisstjóri. Það verður ekki annað séð af þessari greinargerð en hæstv. fyrrverandi fjmrh. og útgefanda l. hafi þarna greint á. Hvort sem það hefur verið herra ríkisstjóri eða forseti, sem l. hefur gefið út, þá hefur hann ekki farið að till. hæstv. fjmrh., heldur breytt till. og farið sína eigin leið. Fjmrh. hefur að vísu fallizt á þetta, en ef svo er, og annað verður ekki séð af grg. og gangi málsins, þá er grg. ákaflega óheppilega orðuð. En ef greinargerðina er að marka, þá sýnist mér um algera nýjung í okkar stjórnarskipun að ræða. Það hefur verið talið sjálfsagt, að minnsta kosti allt frá 1918 og fram á þennan dag, að sá, sem færi með konungsvaldið, og síðan sá, sem færi með forsetavaldið, færi eftir till. ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Það hefur verið talið sjálfsagt, og ég minnist þess, að núverandi hæstv. fjmrh. taldi í umr. hér um núgildandi stjórnarskrá á fyrra hluta þessa þ. sjálfsagt, að þessi háttur yrði hafður á framvegis og það kæmi ekki til mála annað en frv. yrði staðfest, eins og lagt væri til af ríkisstjórninni. En hér sýnist mér, ef þessa grg. er að marka, að æðsti handhafi ríkisvaldsins hafi haft annan hátt á og neitað að staðfesta frv., eins og það kom frá hæstv. ríkisstjórn. Um þetta vildi ég mega beiðast upplýsinga, því að ég tel um stórmerkilegt stjórnskipulegt atriði að ræða, en ef svo er ekki, þá er grg. ákaflega villandi. Ég býst naumast við, að hægt sé að svara þessu á þessum fundi, en ég vildi mega mælast til þess, að upplýsingar séu gefnar um þetta áður en frv. er afgreitt til fullnustu, því að það er nauðsynlegt, að Alþ. og ríkisstjórn viti, hvaða háttur er á þessu hafður og geri sér fyllilega grein fyrir, við hverju má búast af æðsta handhafa ríkisvaldsins í þessu efni. Ég skal ekki leggja nokkurn dóm á, hvort rétt er að farið eða ekki, heldur eingöngu spyrjast fyrir um aðferðina og hvort það sé virkilega rétt, sem sýnist koma fram í greinargerðinni.

Til viðbótar þessu vildi ég mega láta uppi það álit mitt, að mér sýnist miklu skynsamlegra að hafa þann hátt á, sem hæstv. fyrrverandi fjmrh. virðist hafa lagt til, að hinu háa fjármálaráðuneyti sé gefin heimild til að breyta þessu, eftir því sem þörf gerist árlega, í stað þess að sí og æ þurfi að gefa út brbl., breytingar eða skyndibreytingar, til þess að forðast vandræði frá ári til árs.

Þess vegna vildi ég beina því til hv. fjhn., hvort ekki væri rétt að breyta frv. í það horf, sem hæstv. fyrrverandi fjmrh. virðist í upphafi hafa lagt til.