27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3167)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég get því miður ekki gefið neinar öruggar upplýsingar um þetta atriði, sem hv. 6. þm. Reykv. spurðist fyrir um. Ég hef ekki grennslazt eftir þessu, hvorki hjá ráðherra né forseta, hver var ágreiningurinn milli þeirra um þessi l. Ég neita því ekki, að við fyrsta yfirlestur á grg. liggur ákaflega nærri að leggja þennan skilning í það, sem hv. 6. þm. Reykv. gerði, en ég efast um, þegar þetta er nánar athugað, hvort sá skilningur er réttur. Það segir í grg.: „Ráðherrann telur heppilegast, að fjármálaráðuneytinu verði, svo sem verið hefur undanfarin ár, veitt heimild til að breyta umræddum frestum og tímaákvörðunum og að heimildin verði til frambúðar.“

Þetta er skoðun ráðherra, en þegar hann fer að velta fyrir sér, hvort rétt sé að taka þessa áframhaldandi heimild upp í bráðabirgðalögin, þá kemst hann að þeirri niðurstöðu, að það orki tvímælis, hvort það sé í samræmi við stjórnarskipunina og hvort brýn nauðsyn sé á því að setja til frambúðar ákvæði um þessa fresti. Það er ekki hægt að segja, að á þeim tíma, þegar l. voru gefin út, hafi verið brýn nauðsyn fyrir fresti nema fyrir yfirstandandi ár. Hitt er annað mál, hvort þingið tekur til athugunar, eins og hv. þm. benti á, hvort ekki ætti að láta þessa heimild standa eftirleiðis.

Þetta hygg ég, að sé sú rétta skýring á, hvernig orðalagið er. Þótt forseti fari að tala í fyrstu persónu á eftir, þá getur varla annað verið en það sé orðalag ráðherra eða stjórnardeildar þeirrar, sem lagt hefur frv. fyrir forseta. Hins vegar er ég alveg á sömu skoðun og hv. 6. þm. Reykv. um það, að fjhn. ætti að taka til athugunar, hvort ekki ætti að gera breyt. á þessu og veita þessa heimild eftirleiðis. Það er alveg rétt, að það er heldur óviðkunnanlegt og óþarfa fyrirhöfn að gera ár eftir ár slíkar bráðabirgðabreyt., þegar séð er, að þörf er fyrir þær áframhaldandi.