27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3173)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Benediktsson:

Ég geri ráð fyrir, að þær skýringar, sem hæstv. fjmrh. gaf á orðalagi grg., séu fyllilega réttar, a. m. k. að efni til. Ráðherra hefur sætt sig við þá meðferð, og ég get einnig skilið, að það er eðlilegt af ríkisstjóra að vilja ekki gefa út bráðabirgðalög, vegna þess að það var ekki þörf á þeim, og vissa heimild til sjálfsákvörðunar í þessu efni hefur hann óumdeilanlega stjórnskipulega. En mér finnst samt, að hér sé um svo merkilegt stjórnskipulegt atriði að ræða, að ég vildi, þrátt fyrir skýringar hæstv. ráðh., sem voru meira skynsamlegar getgátur en ákveðin fullvissa, beiðast þess, að ákveðin vissa fengist um þetta. Ég tel um svo merkilegt stjórnskipulegt atriði að ræða, að það sé nauðsynlegt fyrir menn að vita, hver háttur hefur verið tekinn upp um þetta. Ég vil engan dóm leggja á það, hvort hér er skynsamlega að farið eða ekki, en ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst þetta svo mikilvægt atriði, að nauðsynlegt sé, að menn viti gerla, hvernig framkvæmdir hafa verið.