09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Það skal ekki verða langt mál, en það er eitt atriði, sem ég vil gjarnan fá útskýringu á, og vonast ég til að geta fengið hana hjá hæstv. forsrh. eða hv. þm. Snæf.

Í frv., eins og það var lagt fyrir Alþ., er gert ráð fyrir, að Loðmundarf jarðarhreppur hafi rétt til að leita lækna í tvö héruð. Þetta mun ekki áður í l. hér á landi. Ég lét þetta gott vera, að hreppurinn ætti þannig tvöfaldan rétt og ekki kæmi til, að hann þyrfti að leggja neinar skyldur á móti. Ég vissi, að í héraðinu var bæði sjúkraskýli og læknisbústaður, og vissi ekki til, að ráðast ætti í neinar framkvæmdir. En við nánari athugun sá ég, að gera þurfti við húsið í Borgarfirði, og þá kom til álita, hvern þátt hreppurinn ætti að taka í kostnaðinum við það, þar sem hann hefur jafnframt rétt til læknisvitjunar til Seyðisfjarðar. Það er nú verið að fara eins með tvo hreppa í Dalasýslu, sem eiga hvor um sig að hafa rétt til tveggja læknishéraða. Hvernig eiga þeir að fullnægja hliðstæðum skyldum, t.d. þegar til þess kemur að reisa læknisbústað? Eiga þeir að fullnægja þeim að öllu leyti í báðum héruðunum eða aðeins til hálfs í hvoru? Ég vildi ekki láta vera vafa um þetta, að því er Seyðisfjörð snerti, og þess vegna komum við hv. 1. þm. N.-M. okkur saman um, að hann skyldi flytja um þetta brtt., og kemur það því ekki til greina þar, ef hún nær samþ. — Þetta er eitt af því, sem eftir er að taka afstöðu til og full þörf er á að athuga, ef gefa á hreppum rétt til tveggja læknishéraða, að þeir viti þá, hvaða skyldur fylgi þeim rétti.

Ég tel, að eins og þetta frv. er orðað, sé verið að sjóða saman tvær ólíkar stefnur: annars vegar að gera læknishéruðin svo stór, að þau geti staðið undir læknisbústöðum og spítölum, hins vegar að gera þau svo lítil, að aðstaðan sé þannig, að læknar geti lítið aðhafzt, þó að þeir fáist, og enginn aðgangur að sjúkrahúsum. Ég tel þannig búið um þetta, að ekki sé frambærilegt að samþ. það. Samkv. þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf, að hann ynni að því að koma upp læknisbústað á Fljótsdalshéraði, mun ég fylgja þeirri rökst. dagskrá, sem fram kom, en ég vænti þess, að það verði eitt af því, sem hv. n. athugar, hvernig eigi að deila skyldunum.