02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég verð að játa, að mér er ekki svo kunnugt um framkvæmd einstakra atriða skattal., að ég sé þess fullkomlega umkominn að leggja dóm á það, hver áhrif samþykkt þessarar brtt. kynni að hafa. En það er mér ljóst, að hún getur haft mikil áhrif að því er þá framkvæmd snertir, þó að ég ekki viti, hversu mikil breyt. í henni felst frá því, sem er. Ég hefði talið ákaflega æskilegt, að umsögn skattstjórans í Reykjavík hefði verið fengin um brtt., áður en hún hefði komið fram.

Að því er snertir síðara atriði brtt., að skattanefndir skuli fylgja sömu reglum frá ári til árs um framkvæmd skattal. og álagning tekjuskatts og að ákvörðun skattanefnda um þessi atriði eða reglum, sem myndazt hafa, verði ekki breytt skattgreiðendum í óhag, nema tilkynning þar um hafi verið birt með hæfilegum fyrirvara, — í sambandi við þetta ákvæði virðist mér augljóst, að þetta á ekki sífellt að vera atriði, sem dómstólarnir kveði á um, hvað sé hæfilegur fyrirvari, heldur virðist mér, að í l. þurfi að standa eitthvað um það, hvað í þessu tilliti telst hæfilegur fyrirvari. Ég hlustaði á ræðu hv. frsm. og heyrði hann ekkert greina, hvað hann teldi hæfilegan fyrirvara í þessu efni. Þetta atriði út af fyrir sig gæti vitanlega skipt allmiklu máli, og mér virðist ekki ástæða til þess að láta slíkt atriði sem þetta vera óákveðið í l. og ætla dómstólunum að skera úr um það í hverju tilfelli, hvað teljast eigi hæfilegur fyrirvari.

Ég er heldur ekki viss um, að það sé fullkomlega tæmandi, sem ætlað er að ná með fyrri málsgr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Við ákvörðun tekjuskatts ber skattanefndum að leggja til grundvallar allar tekjur skattgreiðanda árið áður en skatturinn er á lagður, og verða tekjurnar ekki skattlagðar að óbreyttum lögum eftir þann tíma, nema þeim hafi verið leynt.“

Ég er ekki alveg viss um, að ekki gæti verið ástæða til að gera fleiri brtt. en þessa einu vegna þessarar lagasetningar. En mig skortir þann kunnugleika í þessu efni, að ég er ekki fullkomlega dómbær um þetta. Vildi ég því styðja till. hv. 1. þm. Eyf. um það, að þetta mál verði athugað, og spyrja hv. flm., hvort hann telji það skipta svo miklu máli að fá þessa brtt. nú fram, að ástæða sé til að setja. hana inn í frv. við síðustu umr. í síðari d., sem fjallar um þetta frv.