02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3196)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins, út af því, sem sagt hefur verið hér, af því að mér hefur ekki fundizt það koma nægilega skýrt fram, spyrja hv. þm. Seyðf., hvað hann meini með því, sem stendur í brtt., að tekjur verði ekki skattlagðar að óbreyttum l. Mér skilst, að það, sem með þessari brtt. eigi að tryggja, sé, að tekjur, sem einu sinni er búið að skattleggja, verði ekki skattlagðar aftur. En þó að þetta sé samþ., skilst mér, að engin trygging sé um það fengin með þeirri lagasetningu. Þrátt fyrir það væri hægt að fara svo og svo langt aftur í tímann um að skattleggja tekjur, með því að leggja á eignaraukaskatt. Þess vegna óska ég, að þetta „að óbreyttum lögum“ falli burt úr brtt., því að mér virðist það vaka fyrir hv. þm., að ekki sé hægt með sífellt nýjum l. að leggja skatta á sömu tekjurnar, sem búið er að skattleggja. En mér finnst mjög hæpið, að hægt sé að samþ. þetta, sem í brtt. kemur fram, á þessu stigi, og gæti það m. a. orðið til þess, að annaðhvort yrði að fresta þingslitum eða að frv. á þskj. 356 næði ekki fram að ganga, t. d. ef ákvæði brtt. yrði annaðhvort breytt í hv. Nd. eða það fellt úr frv., því að þá yrði að vísa frv. til þessarar hv. d. aftur. En mér skilst, að nauðsynlegt sé fyrir hæstv. ráðh. að fá þetta frv. samþ., og er leiðinlegt, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur nú. — Mér þætti því eðlilegra, eftir því, sem hér er fram komið, að hv. þm. Seyðf. tæki brtt. aftur, og vil leyfa mér að spyrja hann að því, hvort hann vill ekki taka brtt. aftur til næsta þings.