08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það var verið að samþ. frv. um að leysa einn kennara Háskólans frá starfi. Ég sé, að það er mikill áhugi fyrir því að gera nokkrar breyt. á kennslu í Háskólanum, einkanlega að auka kennsluna. En svo einkennilega horfir við, að það hefur verið samþ. að leysa frá kennslustarfi kennara, sem ég held, að sé almennt álitinn mjög mikill kennari, og þar að auki hefur hann starfað í þeirri deild Háskólans, sem Íslendingum bæri að leggja einna mesta áherzlu á, að hefði góða kennslukrafta. En á sama tíma er farið fram á, að aukið sé við kennslukrafta í þeirri deild Háskólans, sem lítið er sótt, og það virðist sem áhugi fyrir málefnum hennar sé að fjara út hjá þjóðinni. Margir staðir eru prestslausir, og þeir staðir, sem hafa presta, eru safnaðarlausir. Fjöldinn allur vill ekki koma í þessi hús og hlusta á það orð, sem prestarnir flytja. Ég held, að það sé rangt, ef það vakir fyrir flm. þessa frv., að það þurfi að unga út sem mestu af prestakennurum og prestum vegna hins mikla trúaráhuga þjóðarinnar. Því að það virðist vera svo, að lýðurinn vilji ekki meðtaka orðið. Ég held þess vegna, að það verði mjög árangurslítið, þó að við fjölgum kennurum svo og svo mikið við guðfræðideild Háskólans. Ég held, að það lækni ekki þessa meinsemd, ef það skyldi kallast svo, að það er að dofna yfir guðstrúnni hjá þjóðinni. Ég held líka, að það sé ekki það, sem vakir fyrir flm. þessa frv., heldur hitt, sem tekið er fram í grg. frv., að við stofnum embætti fyrir sérstakan mann. Og ástæðan er sú, að honum var misboðið í embættisveitingu. Það er fjarri mér að láta nokkuð í ljós til andmæla því. Ég hugsa, þótt mig skorti þekkingu til að dæma um það, að þessi maður hafi verið hart leikinn í veitingu dósentsembættis og í báðum tilfellum hafi hann verið vel til þess fallinn að hljóta embættið. En það er alger fjarstæða, að það sé hægt að ganga inn á þá stefnu, að þó að fleiri en einn hæfur maður sæki um embætti og þeim sé veitt, sem síður skyldi, þá eigi að stofna nýtt embætti fyrir þá, sem ekki hljóta embættið. Slíka braut er ekki hægt að fara út á.

Ég vil þess vegna mótmæla því og undirstrika það með mínu atkv., að hæstv. Alþ. sé að gera sig sekt um að fara inn á þessa braut.