08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki fara langt út í þetta mál, en ég vil þó benda á það, að það sé engin frekja, þó að farið sé fram á það, að fjölgað sé kennurum við guðfræðideild Háskólans. Deildin er framhald af gamla prestaskólanum, og það er elzti embættismannaskóli hér á landi. Frá því að prestaskólinn var stofnaður hafa þar aldrei verið fleiri en tveir kennarar, eða í rauninni þrír, því að þar var haldið uppi heimspekikennslu með aukakennara, en hann hefur talizt til dósenta. Þó að þessu væri breytt nú, þegar við deildina hafa í rauninni verið þrír kennarar, þá sé ég ekki, að gert hafi verið svo vel við guðfræðideild, að þar þurfi að kvarta sérstaklega undan. Hv. síðasti ræðumaður lagði áherzlu á það, að þörfin fyrir fjölgun kennara við guðfræðideild hefði ekki aukizt, og í öðru lagi taldi hann það fjarstæðu, að stofnað væri embætti handa vissum manni, þó að gengið hefði verið framhjá honum við veitingu slíks embættis. En hv. þm. sleppti höfuðatriðinu, þ.e. að guðfræðin er það mikil vísindagrein, að það er ærið starf fyrir fjóra kennara. En sannleikurinn er sá, að guðfræðideildin hefur gengið mjög upp á síðustu árum og nemendafjöldi hefur aukizt, þannig að á síðustu 30 árum hefur ekki verið um neina afturför að ræða í guðfræðideildinni.

Á síðasta ári (1944) útskrifuðust 10 guðfræðingar, og er það með flesta móti, sem hefur átt sér stað. 1943 útskrifuðust ...... Af þessu sést, að það er ekki um neinn flótta að ræða í þessum efnum, eins og hv. þm. vill meina. Hitt er svo annað mál, að það hefur gengið erfiðlega að fá presta til sumra prestakalla, en það er af öðrum ástæðum, kannske sérstaklega vegna þeirra breyttu hátta í sveitum, að erfiðleikar eru á því að stunda bú og fá vinnumenn og vinnukonur til búsins, en það eru aðrar orsakir. Eins og ég sagði áðan, er engin sérstök deila um það í þessu sambandi, hvort viðkomandi maður hafi orðið fyrir ranglæti, en ég legg áherzlu á það, að í þau tvö skipti, sem hann sótti um slíkt embætti, hefur hann verið dæmdur hæfur til þess starfs af öllum þeim, sem um málið hafa fjallað. En höfuðáherzlu leggjum við á hitt, að guðfræði sé það merkileg vísindagrein og kirkjan það merkileg stofnun, að þessi vöxtur við slíka kennslu, nú eftir margra áratuga skeið, sé langt frá því að vera óforsvaranlegur.