23.01.1945
Efri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Þegar hér var í hv. d. til umr. frv. um mestu fjölgun háskólakennara, sem legið hefur fyrir þessu þingi, — þau eru orðin svo mörg þessi frv. um fjölgun kennara þar, að ég kann ekki að greina þau sundur með öðru en því —, þá benti ég á það, að megingalli á því frv. væri, að engin allsherjarrannsókn hefði farið fram á því, hver þörf Háskólans og einstakra deilda Háskólans væri fyrir kennslukraftaaukningu, og það væri í raun og veru óboðlegt að afgreiða málið, án þess að slík rannsókn hefði átt sér stað, en þó væri ljóst og það lægi í augum uppi, að með því frv. væri einni deild Háskólans, norrænudeildinni, eða réttara sagt deildarhluta, stórlega ívilnað með tilliti til annarra háskóladeilda, og þar af hlyti óhjákvæmilega að leiða, að ef stækkun norrænudeildarinnar yrði samþ., þá yrðu aðrar deildir Háskólans að fá réttan sinn hlut á móts við þá háskóladeild. Hv. þdm. tóku, enginn af þeim, þau rök, sem ég þá færði fram, gild, heldur samþ. frv. óbreytt í þeirri barnalegu trú, sem kom fram hjá hv. þm., sem talaði hér í gær, að það frv. hefði verið byggt á ýtarlegri athugun á kennslukraftaþörf Háskólans. Það var rækilega sýnt fram á það í umr., að sú athugun hafði ekki farið fram þá. Og enn ljóslegar hefur komið fram síðan, hve fráleitt er, að slík athugun hafi átt sér stað, í því, að háskólaráð hefur, eftir þá ýtarlegu rannsókn, sem hv. 9. landsk. þm. talaði um hér í gær, snúið sér til menntmn. þingsins með beiðni um að flytja frv. um einn starfsmann við norrænudeildina, sem þeim hafði gleymzt í vetur, þegar þeir undirbjuggu frv. Það er því miður svo, að enn þá skortir yfirsýn um það, hverja krafta Háskólinn þurfi til þess að sinna starfi sínu. En hæstv. Alþ. kemst ekki hjá því, úr því það hefur látið undan kröfum einstakra deilda varðandi stórkostlega starfsmannafjölgun við kennslu, og langt umfram það, sem aðrar deildir hafa látið sér detta í hug að fara fram á fyrir sig, þótt þær hefðu miklu meira og mikilvægara hlutverki að gegna, úr því að hæstv. Alþ. hefur látið þannig undan kröfum einnar deildar við Háskólann, þá sé ég ekki, að hæstv. Alþ. geti verið þekkt fyrir annað en að láta á samsvarandi hátt undan a.m.k. sanngjörnum óskum annarra deilda Háskólans. Og það var einmitt í umr. um þessa miklu fjölgun háskólakennara, — um það. frv., sem samþ. var og ég gat um, — bent á, að ef menn samþ. það, yrðu menn að vera reiðubúnir til þess að skapa öðrum háskóladeildum sambærileg starfsskilyrði á við það, sem norrænudeildin hefði hlotið. Ég taldi það að vísu ofrausn að skapa norrænudeildinni slík skilyrði sem þá voru ákveðin. Og ég tel ekki fært að skapa öðrum deildum Háskólans slík skilyrði, — þó að mér skiljist, að þeir menn, sem vildu greiða hlut norrænudeildarinnar, ættu að vera með því að rétta hlut annarra deilda líka. En þó að ég treysti mér ekki til þess að auka þannig stórlega aðrar deildir Háskólans eins og norrænudeildin hefur verið aukin, treysti ég mér ekki til að vera á móti sanngjörnum óskum annarra deilda um aukningu. Slíkt væri blábert ranglæti gagnvart öðrum deildum Háskólans og skapaði enn meiri glundroða og öngþveiti í menntamálum okkar en búið er að skapa með þeim frv., sem þetta Alþ. hefur samþ. varðandi Háskólann. — Ég vil þess vegna undirstrika það, að það er í beinu framhaldi af afstöðu minni til háskólafrv. á dögunum, — og það þó að sú skoðun, sem ég hélt fram hér í hv. d. á dögunum, yrði undir —, sem ég hef, ef svo má segja, neyðzt til að taka þá ákvörðun að styðja þetta frv., vegna þess, að ef það væri ekki gert, væri óheyrilegt ranglæti framið á guðfræðideild Háskólans. Og ég geri það ekki sízt vegna þess, að það var játað og yfir lýst, að aukningin á norrænudeildinni á dögunum væri beinlínis gerð til þess að koma þar að mönnum, sem ekki gátu komizt í þær stöður, sem þá þegar voru til við Háskólann. Þar var ekki verið að mynda embætti vegna nauðsynjar í starfinu, heldur til þess að hjálpa einhverjum mönnum um stöður. Og það var vitað, a.m.k. um annan þeirra góðu manna, sem þar áttu hlut að máli, að hann hafði sótt um stöðu, sem laus var í Háskólanum, en annar hafði fengið hana. Og af því að ekki var hægt að veita tveimur mönnum eina stöðu, voru skapaðar tvær stöður handa tveimur mönnum. Ég get ekki séð, að norrænudeildin eigi ein að njóta slíkra kjara. Úr því að hæstv. Alþ. hefur tekið það upp um embættaveitingar, a.m.k. varðandi Háskólann, þá sýnist mér, að elzta og að sumu leyti virðulegasta deild Háskólans eigi ekki að njóta minni réttar en sú yngsta og þess vegna sé frá sama sjónarmiði sjálfsagt að láta sömu reglu gilda um guðfræðideildina í þessu efni sem tekin var upp varðandi norrænudeildina, að úr því að menn geta ekki fengið stöður, sem til eru, þá eigi bara að hafa það handhæga ráð að fjölga stöðunum. Ef norrænudeildinni hefði verið neitað um það, mundi ég neita þessu í sambandi við guðfræðideildina. En ég vil ekki vegna þess, hvernig mönnum er við einstakar fræðigreinar og menn, vera á móti því að veita guðfræðideildinni sama rétt og búið er að veita norrænudeildinni. Og allra sízt vil ég það vegna þess, að guðfræðideildin kemur hreinlega fram og segir: Við höfum ekki nema eina stöðu handa tveimur mönnum, og þess vegna viljum við láta annan manninn fá nýja stöðu með sérstökum l. Þessi framkoma er falslaus og hreinskilin, en hér er ekki verið með yfirdrepskap, eins og verið var með í sambandi við norrænudeildina. Enn þá frekar mun ég fylgja guðfræðideildinni að málum, þar sem hv. Alþ. hefur tekið upp þennan hátt varðandi norrænudeildina að búa til embætti með l. handa umsækjendum, þó að þeir hafi aldrei orðið fyrir neinu ranglæti. Ég held, að allir viðurkenni það, að þó að þeir ágætu menn, sem nú eiga að hljóta dósentsembætti við Háskólann, séu mjög vel hæfir menn, þá hafi t.d. sögukennaraembættið, sem dr. Þorkell Jóhannesson hlaut, verið alveg réttilega veitt og alls ekki gert á hluta hins unga manns, sem þar varð að lúta í lægra haldi með stöðuna. Hann hefur þess vegna ekki um neitt að kvarta annað en það, að hann gat ekki að réttum l. orðið kennari við Háskólann. Þá var það ráð fundið að breyta l. og mynda ný rétt l., sem gera það að verkum, að hann getur hlotið stöðuna. Varðandi guðfræðideildina er það vitað mál og ekki um deilt, að sr. Björn Magnússon prófastur hefur tvívegis orðið fyrir mjög hastarlegu ranglæti af veitingarvaldinu, einstæðu ranglæti, sem ekki aðeins er honum sjálfum til miska, heldur orðið til ófarnaðar fyrir alla guðfræðideildina, og það er þess vegna ekki í raun og veru nema réttlát uppreisn, bæði fyrir sr. Björn Magnússon og guðfræðideildina, að þetta sé nú leiðrétt. Ég vil taka það fram, að þó að það sé óvanalegt, að tekið sé fram í l., að einstakur maður eigi að hljóta ákveðna stöðu, þá er það ekki algerlega óþekkt varðandi Háskólann, vegna þess að bæði var slíkt gert með dr. Guðmund Finnbogason á sínum tíma, að ákveðið embætti var stofnað handa honum, og eins liggur nú hér fyrir frv. varðandi próf. Sigurð Nordal, sem er í raun og veru ekkert annað en að ákveðinn mann eigi að skipa í tiltekna stöðu. Það er því eftir allra beztu fordæmum, að nú er tiltekið, að sr. Björn Magnússon eigi samkv. þessum l. að fá tiltekna stöðu. Með þessu er líka hreinlega gefið í skyn, að verið er að rétta hlut manns, sem fyrir ranglæti hefur orðið.

Ég vil þó taka það fram, að ég hefði talið eðlilegra að rétta hlut þessa manns á annan veg. Ég hefði talið eðlilegt, að hv. Alþ. hefði samþ. víti á þann ráðh., sem nú síðast, og jafnvel á hinn fyrri líka, sem hafa beitt þennan góða mann ranglæti, og honum hefði verið veitt góð fjárhæð úr ríkissjóði til uppbótar fyrir það tjón, sem hann hefur beðið vegna þess ranglætis, sem hann hefur verið beittur, og því beint til veitingarvaldsins, að honum væri séð fyrir góðu embætti, þegar það losnar á næstunni.

Þetta hefði auðvitað verið sá venjulegi háttur til þess að afgreiða slíkt mál, en ekki sá, sem upp er tekinn með þessu frv. En vegna þess að hv. d. er búin, af miklu minna tilefni og í rauninni gersamlega að ástæðulausu, að taka upp sama hátt varðandi norrænudeildina og á að gera varðandi guðfræðideildina í þessu frv., treysti ég mér ekki til annars en láta jafnt yfir báða ganga og styð þetta frv. Ég vil taka það fram, að það eru einstök atriði í frv., sem ég hefði kosið á annan veg, og ég mundi þess vegna hafa borið hér fram brtt., ef ég teldi ekki, að málinu væri stefnt í nokkra hættu með því að láta það nú hrekjast á milli deilda. Það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vil beina til hæstv. forseta til athugunar. Ég sé, að í 1. gr. frv. er tekið til, á mér óþekktu tungumáli, heiti á einhverri væntanlegri stofnun.

Nú held ég, að það séu óskrifuð lög, að íslenzk lagafyrirmæli eigi að vera á íslenzkri tungu en ekki erlendri og allra sízt á tungumáli, sem fáir menn skilja og fæstir koma orðum að. Ég vildi þess vegna beina því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki úrskurða, að þetta erlenda heiti félli niður úr frv. Ég vil biðja hann vinsamlega að taka þetta til athugunar. Hins vegar óska ég ekki, að það verði gert, ef af því leiðir, að frv. verði að fara milli d. Þótt ég leggi nokkuð upp úr þessu, er það ekki svo mikið, að ég vilji láta frv. verða fyrir töfum af þeim sökum, og mun því fremur kjósa, að þetta óþekkta tungumál haldist en að frv. verði fyrir hrakningi af þeim sökum.