26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var hér til umr. síðast. gaf kennslumálaráðh. þá yfirlýsingu, að hann mundi ekki veita öðrum en séra Birni Magnússyni embættið, þótt brtt. á þskj. 906 yrði samþ. Mér fannst dálítið einkennileg þessi yfirlýsing, því að ef þessi brtt. er samþ., finnst mér málið sé komið á eðlilegt stig, þ.e. að samkeppni fari fram um embættið. En það undrar mig mjög, að hv. 1. þm. Reykv. skuli vilja ganga á þá meginreglu Háskólans, að hann fái að ráða nokkru um það, hvernig embætti hans eru skipuð. En ég skal ekki fara langt út í það atriði, en vil aðeins bera fram fyrirspurn til hæstv. ráðh.: Ef frv. er samþ. eins og það nú liggur fyrir, mundi hann þá veita það séra Birni eða nokkrum öðrum manni?

Það kemur glöggt fram í frv., að ekkert tímatakmark er í því um það, hvenær embættið skuli stofnað. Nú skilst mér á flm., að séra Björn Magnússon muni ekki sækja um fleiri embætti við Háskóla Íslands. Yrði ráðh. þá að veita það manni. sem ekki einu sinni sækir um embættið? Mér finnst ástæða til að setja einhver ákvæði um þetta í frv. og það skuli stofna innan einhvers ákveðins tíma. (JJ: Það má sækja um fyrir umsækjandann.) Ég veit ekki, hvort honum þætti það nokkuð meiri sómi, að hv. þm. S.-Þ. sækti um fyrir hann. En sem sagt, ég vildi gjarnan fá að heyra um þetta frá hæstv. ráðh.

Annars var ég undrandi á ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann taldi, að embættið væri óþarft, en ræða hans gengur út á að sanna það. að hann geri rétt að greiða atkv. með málinu.

Ég get ekki séð, hvernig hv. 6. þm. Reykv. getur réttlætt þessa skoðun sína, nema á bak við hana standi sú hugsun, að hann ætli sér strax að fara að krefja um ný embætti fyrir lögfræðideildina, og er mér ómögulegt að skilja mál hans á neinn annan hátt. En ef þetta er ætlun hans, þá er ástæða til að spyrna við fótum, því að þá er komið að því, sem hann hefur spáð, að með stofnun þessara embætta væri verið að skapa glundroða innan Háskólans. Við vissum ekki, inn á hvaða plan við værum að halda í embættaveitingum Háskólans. ef við héldum svona áfram. Enda sýnir þetta byrjunina, því að jafnsterkur maður og hv. 6. þm. Reykv. hefur nú kiknað fyrir þessu, þar sem hann var samþykkur því hér um daginn að stofna óþarfa embætti við Háskólann og er þá væntanlega fylgjandi stofnun hvers þess embættis, sem fjölgað verður við Háskólann og þá ekki hvað sízt, ef það snertir lögfræðideildina, og hefur hann viðurkennt það, að hann hafi snúizt í þessum málum, af því að hann óskaði eftir því, að þau skapi glundroða. Vitanlega mun þetta skapa glundroða, og er rétt, að menn geri sér það ljóst, þegar til atkvgr. kemur um þetta mál.

Ég hafði hugsað mér að bera fram rökstudda. dagskrá í þessu máli, en hef við nánari athugun fallið frá því, en vil sjá, hverju fram vindur, hvort hæstv. ráðh. svarar, og sjá, hvort tekið verður tillit til þess af flm., og mun bíða þar til málið verður komið á annað stig en það er nú á.