09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

27. mál, skipun læknishéraða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal nú ekki þreyta mikið umr. um þetta mál almennt. En aðeins út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að með því að samþ. þessar breyt. á frv., sem fyrir liggja till. um, væri aukin læknisþjónusta í dreifbýlinu, þá vil ég taka fram, að ég tel þessa fullyrðingu vægast sagt orka mjög tvímælis, eins og nú er háttað í læknamálum landsins. Meðan hvorki heilbrigðisstj. né þingi hefur reynzt kleift að fá lækna í öll þau læknishéruð, sem til eru eftir l. og hafa ber lækna í, þá tel ég, að vel geti svo farið, að sú aðferð að búta eldri læknishéruðin niður í smærri héruð verði til þess, að sum læknishéruð, sem áður eru til staðar og þar sem fólk á allra örðugast með að ná til læknis og að fá lækni í héruðin, verði læknislaus, vegna þess að læknar, sem þar væru, færu í sum af þessum nýju héruðum, sem nú yrðu stofnuð, ef svo verður gert, — þannig að verr væri farið en heima setið með því að samþ. nú, eins og á stendur, að skipta læknishéruðum í smærri héruð.

En fyrir mér er þetta ekki röksemd fyrir því, að ekki beri að fjölga læknishéruðum, heldur röksemd fyrir því, að jafnhliða því sem læknishéruðum væri fjölgað, verði þingið að gera ráðstafanir til þess, að menn fáist til þess að þjóna sem héraðslæknar í þessum nýju héruðum, sem stofnuð yrðu, því að annars gæti svo farið, eins og ég gat um áðan, að það yrði ekki til þess að gera fólkinu í dreifbýlinu léttara fyrir en áður um læknisþjónustu. — Ef t.d. stofnað yrði nýtt læknishérað í Árnessýslu, þar sem þó stutt er til læknis nú þegar, og það yrði til þess, að læknir færi úr strjálbýlu héraði úti á landi í það nýja hérað og enginn læknir fengist aftur í það strjálbýla hérað, þá yrði það til þess að setja menn í mikinn vanda í þessu efni — og það þar, sem sízt skyldi. En ég tek greinilega fram, að þetta er ekki röksemd af minni hálfu fyrir því, að ekki þurfi að endurskoða læknaskipunina í landinu og stofna ný læknishéruð. En ef þau verða stofnuð, þá verður jafnframt að gera ráðstafanir til þess, að það verði ekki til þess, að önnur héruð verði læknislaus einmitt af þeim ástæðum.

Ég vil alveg sérstaklega taka fram, að ég átti hlut að því að koma á framfæri við hv. fjvn. till., sem hún tók til greina, um að veita milli 40 og 50 þús. kr. til þess að bæta upp laun héraðslækna í þeim héruðum, þar sem fólk er fæst og verst er að fá lækna til þess að taka að sér læknisþjónustu. Og ég vona, að það geti komið að einhverju verulegu haldi.

Út af því, sem hv. 6. landsk. þm. (LJós) sagði, vil ég segja þetta: Mér hefur aldrei dottið í hug — og ekki heldur neinum, sem hér hafa talað af Austurlandi, — að það ætti að setja aðeins einn lækni í Fljótsdalshérað og fækka þannig skipuðum læknum landsins um einn, heldur hefur verið tekið greinilega fram af öllum, að til þess sé ætlazt, að í þessu héraði verði tveir læknar, einn héraðslæknir og einn aðstoðarlæknir. En því hefur verið haldið fram, að hentast væri, að þeir væru báðir settir í mitt héraðið.

Þá sagði hv. 6. landsk., að honum sýndist sem ekki mundi verða hægt að koma í framkvæmd byggingu læknisbústaðar í miðju Fljótsdalshéraði nema með því, að þetta frv. yrði nú samþ., vegna þess að íbúarnir í tveimur hreppum í því væntanlega læknishéraði væru mótfallnir breyt. — Ég hef hugsað mér, hvernig heilbrigðisstj. hagaði þessu, og dreg það af því, sem hæstv. ráðh. hefur sagt, og af framkomu hans að öðru leyti. Ég geri ráð fyrir, að heilbrigðisstj. mundi bjóða þeim hreppum, sem hér eiga hlut að máli, framlag af ríkisins hálfu í læknisbústað og byrjunarsjúkraskýli. Og ég geri nú ráð fyrir því, að allir hrepparnir, nema kannske þessir tveir, muni tjá .sig reiðubúna að samþ. þetta til undirbúnings lögfestingar á læknishéraðinu. Má vera, að heilbrigðisstj. setji það ekki fyrir sig, þó að samþykki þessara tveggja hreppa vantaði, heldur setti þetta af stað og legði fram fé til þessarar framkvæmdar, þegar út í það væri komið. En ef til framkvæmda væri komið um byggingu læknisbústaðar og heilbrigðisstj. þætti ekki þann veg á þessu haldið sem skyldi og ekki íbúum sumra hreppanna heima fyrir, þá hugsa ég mér, að ríkisstj. mundi setja brbl. Ég efast ekkert um, að hún gerði það til þess að koma málinu fram, bæði vegna þess, að hér er sérstakt neyðarástand fyrir hendi og einnig mjög almennur vilji þeirra íbúa, sem hér eiga hlut að máli, og alveg tvímælalaust einróma þingvilji, sem hæstv. ríkisstj. mundi hafa fyrir þessari lagasetningu, — þannig að hér væri allt til staðar til þess að gera brbl. í þessu efni eðlileg og sjálfsögð. Mér dettur því ekki í hug, að þessu máli yrði teflt í nokkra hættu, þó að sú leið yrði farin, sem ég hef lagt til. Og ég sé því ekki hina sömu nauðsyn á því að drífa nú fram þetta frv. um verulegar breyt. á læknaskipun í landinu út af þessu atriði, og þá sérstaklega vegna þess, að ég tel sumar þessar breyt., sem till. hafa komið fram um og eru í frv., orka tvímælis og það sé þá mjög vafasamt að skilja eftir óafgreiddar aðrar breyt., sem komið geta til mála á læknaskipuninni.

Hv. 6. landsk. þm. sagðist ekki telja sig dómbæran um það, hvort samþ. ætti þau héruð, sem hér hafa komið fram till. um að stofna, og hann bætti svo við, að hann teldi það ekki skipta svo miklu máli, hvort rétt og skynsamlegt væri að stofna þrjú ný læknishéruð. Það hefur verið venjulegast hér á Alþ., að menn hafa verið tregir til þess að stofna til nýrra embætta, a.m.k. áður fyrr, og vildu, að nauðsyn væri fyrir hendi, ef þeir ættu hlut að því. Og ég get ekki skilið afstöðu hv. 6. landsk. þm., að hann sé svo hirðulaus um afstöðu sína í þessu máli, þegar fyrir liggur, að hægt er að leysa þessa nauðsyn, sem hann ber fyrir brjósti, og sýni slíkt hirðuleysi, sem hann upplýsir, að hann sé reiðubúinn að sýna um alla meðferð málsins. — Þar með vil ég ekki, að það sé á nokkurn hátt misskilið, að ég er ekki með afstöðu minni að leggja nokkurn dóm á það, að þessi héruð skuli ekki stofna, heldur bendi ég aðeins á, að þessi mál þurfa í heild sinni gaumgæfilegrar athugunar við.

Ég skil vel áhuga hv. þm. Snæf. á að fá læknishérað stofnað á Snæfellsnesi, og eins áhuga umboðsmanna Árnessýslu. En mér virðist, að menn ættu að geta orðið sammála um að taka út úr þetta mál, sem mest nauðsyn er á, og samþ. það, fyrir Fljótsdalshérað, en svo verði reynt að undirbúa með athugun lausn vandamála hinna héraðanna í haust. Verði þá reynt að leysa læknaskipunarvandamálið í heild betur en okkur hefur tekizt fram að þessu.