26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ætli það sé ekki rétt að ég taki upp þráðinn. þar sem hann slitnaði hjá hv. 2. þm. Árn., því að það varð orð að sönnu, að ég tek nú við vaktinni í umr., þegar hann fer af henni.

Ég játa það og ber engan kinnroða , fyrir, að ég vildi ekki sýna þessu máli þá vansæmd að láta það ekki komast til n. Ég áleit rétt, að málið færi til athugunar í n. og hinn rétti vilji hv. d. kæmi fram í málinu, hver sem hann er, og ég segi fyrir mig, að mér datt ekki í hug að hlaupa frá málinu og taka ekki þátt í atkvgr.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. væri vel undirbúið, og mér virtist einnig hæstv. menntmrh. taka undir það á vissan hátt. Hann kvaðst ekki mundu láta „agitera“ fyrir nokkru öðru máli eins og þessu. Hvort báðir hafa meint það sama viðvíkjandi undirbúningi málsins, skal ég láta þá um og skal ekki teygja lopann lengi um þetta atriði.

Ég vík þá aftur að hv. 6. þm. Reykv. Hann taldi, að ég hefði í ræðu minni játað, að ég hefði talað við annan dósentinn í norrænudeildinni. Ég tók það fullkomlega fram, að ég vissi í raun og veru ekki um, hver kynni að verða dósent, því að þótt menn hefðu verið nefndir, sem líklegir væru til þess að fá þessi embætti, þá var mér ekki kunnugt um, hvort þessir menn mundu sækja um þau. Svo að þetta var aðeins ráðagerð, en auðvitað hvetur það mann meira til þess að fylgja stofnun nýrra embætta, þegar ágætir og fróðir menn sækja um þau.

Þegar maður lítur á það, að hinum norrænu fræðum við Háskólann sé mest á loft haldið og unnið sé sem mest að þeim störfum, eins og ég tel þurfa, þá er það aldrei of oft sagt, og það á Háskóli Íslands að hugsa um og allir landsmenn, að norrænud. við Háskólann ber einmitt að efla, eftir því sem kostur er á, ef menn á annað borð vilja, að orðrómur fari af þessum háskóla og berist til annarra landa. — En hitt verð ég að segja, að það getur náttúrlega skeikað að sköpuðu um það, hvort allir verða svo frjósamir bókaútgefendur, þótt þeir komist í þessi embætti, að þeir frekar en aðrir uppfylli hillur þeirra, sem safna bókum. En ég taldi það mjög vafasama afstöðu til guðfræðideildarinnar, ef stofnað yrði þar annað dósentsembætti, sem ef til vill mundi lengja námstíma þeirra, sem þar stúdera sína námsgrein, því að við vitum, að fátækir stúdentar verða oft að taka praksís jafnhliða námi sínu, þar eð þeir hafa ekki fjármagn til þess að stúdera of lengi í sinni námsgrein, einkum ef það er ekki tekjumikið embætti, sem blasir við. Ég vil þess vegna minna þá menn á það, sem efla vilja guðskristni hér á þessu landi, að þeir athugi betur, hvort það er í raun og veru rétt að stofna til þessa dósentsembættis í guðfræðideild, sem vafasamt er, hvort verður til mikillar eflingar fyrir okkar guðfræðistétt, enda þótt góður maður komi þar í, en skerða þar með hina fámennu hjörð, sem á að vera til sálgæzlu úti um land. Við vitum, að fjölmörg prestaembætti standa auð, og við vitum, að það er beinlínis ákveðið að sækja einn af þessum fáu sálnahirðum utan af landinu og setja hann niður hér í Reykjavík, og með þessum manni fækkar auðvitað sálnahirðunum úti á landi. — Ég játa hins vegar, að það er rétt og sjálfsagt að sýna sr. Birni Magnússyni vott þess, að hann hafi verið hörðu beittur, og þar sem slíkt átti sér stað meira að segja við tvær veitingar í dósentsembætti við guðfræðideild Háskólans. Það er því enginn vafi á því, að sá maður á að fá einhvern greiða í staðinn úr ríkissjóði, en ég held, að þetta, sem hér er talað um, verði seint til að bæta honum upp það óréttlæti, sem hann hefur verið beittur. Mér hefði þess vegna fundizt réttara, að hann fengi heiðurslaun fyrir hrakningana heldur en að taka þennan ágæta sálnahirði úr sveitinni.