05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Ég hef borið fram á þskj. 1015 brtt. í tveim liðum. Fyrri liðurinn er við 1. gr. frv.. að þar verði bætt inn í „eigi síðar en í lok ársins 1945“. Mér þykir eðlilegt, vegna þeirrar yfirlýsingar, sem fram hefur komið frá hæstv. menntmrh., að þetta sé sett inn í frv., svo að engum blöðum sé um það að fletta, að þessum ákveðna manni sé veitt þetta embætti á þessu ári.

Síðari liður brtt. er, að aftan við 2. gr. komi ný gr., sem hljóði þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi“. Það er orðið venja hér á þingi, að slík ákvæði séu sett í frv., en flaustrið hefur verið svo mikið við að búa þetta frv. út og koma því gegnum þingið og menntmn. beggja d. o.s.frv., að enginn virðist hafa séð þennan agnúa á frv. Ég geri ráð fyrir, að þeir menn sem bera það svo mjög fyrir brjósti, að þetta frv. nái fram að ganga gallalaust, séu fúsir til að fylgja þessum brtt. báðum, þar sem þær eru í raun og veru ekki nema sjálfsagðar leiðréttingar á formi frv.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða nánar um þetta atriði.