05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Gísli Jónsson:

Ég vil í tilefni af ummælum hv. 1. þm. Reykv. benda á, að hvorki hann né aðrir fylgismenn þessa frv. báru svo mikið traust til hæstv. menntmrh., að þeir vildu láta falla burt það atriði úr 1. gr. frv., að sr. Björn Magnússon yrði skipaður í embættið, þó að hæstv. ráðh. hefði marglýst yfir, að hann legði mikið upp úr formsins vegna, að það atriði yrði fellt burt, en hann mundi engum öðrum veita það en þessum manni. Nú, þegar á að hafa sem allra mest öryggi, þá kemur hv. 1. þm. Reykv. og segist bera svo mikið traust til þessa sama manns, að engin þörf sé á að samþ. þessa till., sem er beint sprottin af því vantrausti, sem hann lýsti á hæstv. ráðh. í þessu sérstaka atriði.

Um hitt þarf ekki að ræða. að það er ekki nema sjálfsögð leiðrétting, og ég lít svo á, að ef fylgismenn frv. treysta sér ekki til að samþ. till., þá sé það af því, að þeir viti, að málið hefur ekki fylgi í þinginu, og þá eru þeir að berja fram mál. sem er borið fram og samþ. af minni hl. Alþingis, og það styrkir engan veginn þeirra mál, auk þess sem þeim hefur verið bent á, að 1. gr., þó að hún sé samin af æruverðum biskupnum með aðstoð guðfræðideildar Háskólans, þá er ekki sæmilegt að láta hana standa eins og hún er með útlendum orðum, sem ekki nema sárafáir þm. skilja, auk þess sem það eru fleiri en einn, sem ekki skilja heldur ákvæði 2. gr., hvernig beri að framkvæma þá sálgæzlu, sem þessi maður á að kenna samkv. þeirri gr., svo að það hefði þurft að semja allt frv. um. Um það skal ég ekki deila nú, en ef þessir aðilar treysta sér ekki til að samþ. þessar sjálfsögðu leiðréttingár, þá er það af engu öðru en því, að eitthvað annað liggur á bak við.