21.11.1944
Efri deild: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3269)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mál þetta á þskj. 316 er borið fram af fyrrv. ríkisstjórn, og var við það frv. stuðzt við uppkast frá mþn. í sjávarútvegsmálum, þótt í nokkrum atriðum væri vikið frá þeim till., sem mþn. í sjávarútvegsmálum lagði til í sínu uppkasti. Var það einkum í þessum tveim meginatriðum, að mþn. í sjávarútvegsmálum lagði til, að með þetta mál færi 3 manna n., en ríkisstjórnin gerði till. um fjölgun í n. og vildi, að með það færi 5 manna n. Auk þess hefur mþn. í sjávarútvegsmálum lagt til, að ríkisstjórninni sé veitt heimild til þess að verja stórum fjárfúlgum til byggingar og reksturs frystihúsi, allt að 700 þús. kr., en fráfarandi ríkisstjórn vildi ekki taka þetta inn í sitt frv. Þessu máli var vísað til hv. sjútvn. þann 15. sept. og hefur legið hjá n. í 2 mánuði, og vildi ég gera grein fyrir ástæðunum til þess, að það var svo lengi í meðförunum. Stafaði það fyrst og fremst af því, að framan af var ekki hægt að afgr. málið vegna þess, að forseti Fiskifélags Íslands var erlendis og með honum núverandi hæstv. dómsmrh., og þótti rétt að bíða eftir heimkomu þeirra, svo að hægt væri að ræða við þá, en vitað var, að hæstv. dómsmrh. var engan veginn sama um það, hvernig málið yrði afgreitt. Málið hefur verið sent Fiskifélagi Íslands til umsagnar, en það lagði á móti því, að frv. yrði samþ. eins og það kom frá ríkisstjórninni. Meiri hl. sjútvn. taldi, að gera þyrfti miklar breyt. á frv., og meiri hluti n. tók sig til og samdi frv. upp að nýju í raun og veru og gerði á því nokkrar breyt., en þær eru aðallega fólgnar í því, að beita skuli metin áður en hún er fryst. Samkv. frv. stjórnarinnar skyldi meta hana þegar hún væri seld. Sjútvn. áleit nauðsynlegt að fyrirskipa mat á beitunni nýrri, því að það hefur engu minni þýðingu að tryggja það, að sem allra bezt sé farið með beituna áður en hún er fryst. Sjútvn. var einnig sammála um að halda þeim ákvæðum að láta fara fram beitumat, eins og gert er ráð fyrir í frv. fyrrv. ríkisstjórnar.

Meiri hluti sjútvn. vildi ekki láta setja á stofn sérstaka n. til þess að hafa á hendi þessi mál, hvorki 3 manna né 5 manna n., eins og mþn. í sjávarútvegsmálum og fyrrv. ríkisstjórn hafa gert ráð fyrir í frv. sínum, heldur vildi meiri hl. n. fela Fiskifélagi Íslands málið algerlega og láta það hafa bæði veg og vanda af því. Fiskifélagið er hér stærsti umboðsaðili þeirra manna, sem mest nota þessa vöru, þ. e. a. s., smáútvegsmanna, og þótti þá eðlilegt að láta það hafa með þetta mál að gera, enda er skýrslusöfnun sú, sem Fiskifélagið annast, mikill þáttur í þessu starfi.

Þriðju breyt. eru þær, að n. lagði til, að skýrslusöfnunin verði gerð ýtarlegri en frv. gerir ráð fyrir, og raunverulega er þá frv. komið í það horf, að meginatriðin eru beitumatið annars vegar og víðtæk skýrslusöfnun hins vegar, svo að Fiskifélagið geti á réttum tíma gefið nauðsynlegar upplýsingar til allra þeirra aðila, sem þetta mál snertir, um þá hættu, sem kynni að vera yfirvofandi á hverjum tíma, svo að þeir hafi tækifæri til þess sjálfir að bæta úr því, áður en í óefni er komið, en ef það skyldi bregðast, að geta þá fylgzt svo náið með málinu, að Fiskifélagið geti einnig gripið inn í til þess að forðast hættuna af beituskortinum. Þetta er nákvæmlega í samræmi við þær till., sem fiskiþingið hefur gert í málinu. N. kallaði til sín fulltrúa frá Fiskifélaginu og ræddi við hann um frv., eftir að þessar breyt. höfðu verið gerðar, og lýsti hann yfir því, að hann væri samþykkur því eins og það nú liggur fyrir og lagði til fyrir hönd Fiskifélagsins, að frv. næði þannig breytt fram að ganga á Alþ. Einn af nm., hæstv. forseti þessarar d., gat ekki orðið n. sammála og skilar hann því séráliti.

Hv. l. þm. Reykv. var ekki á fundi, þegar endanleg ákvörðun um þetta mál var tekin, og hefur því ekki skrifað undir nál. Gerir hann ef til vill grein fyrir sinni afstöðu til málsins við þessa umr.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, minnast á nál. hv. minni hluta. Hans afstaða er fólgin í því, að hann vildi hallast að því ákvæði í frv. fráfarandi ríkisstj., að n. yrði skipuð til þess að framkvæma þetta mál, en það yrði ekki falið Fiskifélaginu. En þó er það kannske enn veigameira atriði, að hann vildi einnig, að ríkisstjórninni yrði gefin heimild til þess að verja stórum fjárhæðum úr ríkissjóði, ef nauðsynlegt þætti, til byggingar og reksturs frystihúss eða allt að 200 þús. kr. lán til reksturs þess auk byggingarkostnaðar.

Það er talað um samkv. þessu nál., að beitun hafi önnur úrræði, sem grípa megi til, ef samningar við frystihúsaeigendur reynast torveldir. Það er engan veginn hægt fyrir Alþ. að gefa ríkisstjórninni heimild til þess að byggja fyrirtæki fyrir 500 þús. kr. og taka 200 þús. kr. rekstrarlán, og svo yrðu þessi fyrirtæki aðeins notuð ef ástæður þættu til þess að grípa inn í. Vitanlega verður, er byggja á frystihús, að skapa því eðlileg rekstrarskilyrði. Um þetta var rætt í n., og það kom fram, að nm. höfðu ekki trú á, að hægt væri að reka frystihús, sem ekki frysti annað en beitu, og þess vegna yrði að ákveða fyrirtækinu rýmra starfsvið, ef heimila ætti ríkisstjórninni framkvæmd þessa. Það var m. a. vegna þess, að meiri hl. n. gat ekki fallizt á að hafa þetta í frv., auk þess sem horfurnar hafa breytzt mjög, með því að frystihúsum hefur fjölgað í landinu og eru nú svo að segja í hverri veiðistöð, í sumum veiðistöðvum 2 eða 3, og að áliti beztu manna um þetta mál er það raunverulega mikið til sjálfskaparvíti, ef beituskortur verður, sem nú orðið getur eingöngu orðið vegna skorts á upplýsingum. Hér er gert ráð fyrir því í till. meiri hl. n. að koma ábyrgðinni að svo miklu leyti sem hægt er á þá aðila, sem við þetta eiga að búa, ekki einasta á sjómennina og útgerðarmennina, heldur og á þau hreppsfélög, þar sem afkoma hreppsins veltur á því, hvort nægilegur beituforði er til eða ekki. Grípur þá Fiskifélagið ekki inn í nema eftir till. þessara aðila. Þótti n. sjálfsagt að hafa þetta í frv., svo að þeir tækju meðábyrgð á þessum málum. Ég skal líka leyfa mér að benda á, að síðan farið var að frysta nýmeti í gúmmíumbúðum, en sú frystiaðferð ryður sér nú til rúms í Vesturheimi, eru sigraðir þeir erfiðleikar við geymslu á beitu, að hún þránar ekki, og þarf þá ekki að hafa umhverfis hana þykkar klakahúðir til þess að verja hana, eins og nú er gert, og auk þess er hægt að geyma hana í slíkum umbúðum árum saman, án þess að hún skemmist, en það eru mestu erfiðleikarinr við beitufrystinguna, að ef beitan hefur ekki selzt öll á sama árinu og hún er fryst, hefur orðið að fleygja því, sem eftir var, vegna þess að hún hefur þránað og er þá orðin óhæf til sölu.

Strax og hægt er að fá slíkar umbúðir til landsins er þess vænzt, að Fiskifélag Íslands hafi opin augun fyrir því að benda viðkomandi aðilum á að nota slíkar umbúðir, og vænti ég, að það takist innan skamms tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar að sinni, en legg til fyrir hönd meiri hl. n., að breyt., sem hún hefur gert á þskj. 511, verði samþykkt.