21.11.1944
Efri deild: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (3273)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég vil gera grein fyrir minni afstöðu í þessu máli, þótt það geti eigi talizt afstaða ríkisstjórnarinnar, sem ekki hefur rætt málið. Málið er lagt fyrir af fyrrv. atvmrh., og hafði hann fellt úr áliti mþn. ákvæði um, að beitunefnd mætti láta reisa frystihús til að frysta beitu. Með því að fella þetta burt er beitunefnd breytt þannig, að hún er ekki lengur framkvæmdanefnd, heldur nokkurs konar eftirlitsnefnd. Þá var og breytt skipun nefndarinnar, þannig að í staðinn fyrir fulltrúa hlutarsjómanna koma fulltrúar útgerðarmanna. En ég tel, að ekki ætti að fela Fiskifélaginu þetta, sem hefur eigi aðstöðu til að fylgjast með þessu á Norðurlandi, en þaðan kemur beitan. Ég álít því, að frv. sé betra eins og það kemur frá mþn. en sjútvn. og það sé þannig líklegra til verulegra úrbóta. Sama er að segja um önnur þau ákvæði, sem felld voru burt úr till. varðandi álit minni hlutans. Þá gæti komið til mála að fela síldarverksmiðjunum þetta, en til þess þarf fyllri ákvæði. Þær starfa eftir lögum, sem þetta getur ekki fallið undir. Til þess þyrfti fyllri ákvæði, t. d. mega þeir, sem leggja inn síld í lýsi, ekki eiga á hættu, að því verði blandað saman við rekstur, sem gæti orðið tap á. Þeim rekstri yrði því að halda aðgreindum. Ég vek aðeins athygli á þessu, án þess að ég vilji blanda mér frekar inn í þetta að svo komnu.