15.12.1944
Neðri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls í fyrrakvöld beindi hv. 1. þm. Rang. því til heilbr.- og félmn., sem flytur þetta frv., hvort ekki væri rétt að setja inn í frv. ákvæði um, að þeir læknisbústaðir, sem væru í byggingu eða byggingu að mestu lokið, gætu komið undir l., þar eð fullkomin sanngirni mælti með því, þar sem þeir væru byggðir á þessum mjög svo dýru tímum, og er þá sérstaklega átt við læknisbústaðina á Stórólfshvoli og á Breiðamýri.

Heilbr.- og félmn, tók þetta atriði til athugunar á fundi sínum í dag, þar sem hæstv. heilbr.- og félmrh. var viðstaddur. Hæstv. ráðh. skýrði þá frá þeim skilningi á frv., að það gæti náð til sjúkrahúsa og læknisbústaða, þar sem ekki hefði þegar farið fram fullnaðaruppgjör á kostnaði. — Samkv. upplýsingum frá landlækni er svo ástatt um báða þessa staði, að fullnaðaruppgjör hefur enn ekki farið fram, og geta þeir því komið undir frv., án þess að gerðar séu nokkrar breyt. - Af þessum ástæðum er ekki flutt brtt. í samræmi við það, sem hv. þm. minntist á.