09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

27. mál, skipun læknishéraða

Pétur Ottesen:

Það er ekki undarlegt, þó að hv. þm. A-Húnv. finnist hann ekki þurfa að svara því, sem ég sagði, því að svarið er, að hann er sammála mér. Það er gersamlega þýðingarlaust að stofna ný héruð, ef ekki fást læknar í þau. Það sýnir sig, að meðan fullt er af héruðum, sem engir læknar fást til að þjóna, er ekki til neins að fjölga þeim.

Til hverra ráða hefur þá verið gripið? Það hefur einmitt verið gripið til þeirra ráða að fá læknana í nágrannahéruðunum til að bæta við sig þeim héruðum, þar sem enginn læknir hefur fengizt til að vera. Nei, reynslan sýnir, að eigi raunveruleg bót að fást á ástandinu, verður að setja löggjöf, sem tryggir, að læknar fáist í þau héruð, sem nú eru, og í þau, sem stofnuð munu verða. Þangað til þetta er gert, er það, eins og ég sagði áðan, „skrautfjöður í hattinn“ að vera að búa til ný læknishéruð. Enda er ég ánægður yfir því að hafa framkallað þessa viðurkenningu og vona, að við verðum samtaka á haustþinginu að bæta úr þessari vöntun. Þegar þar að kemur, skal ekki standa á mér. Það er e.t.v. það eina, sem hefst upp úr þessum umr., að augu manna opnist fyrir því, hvað þarf að gera. Og þá er þess að vænta, að umhyggja manna fyrir fólkinu í dreifbýlinu verði eins mikil og látið er í veðri vaka, að hún sé nú.