09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

27. mál, skipun læknishéraða

Garðar Þorsteinsson:

Ég er þeirrar skoðunar, að löggjöfin sjálf verði aldrei mælikvarði á það, hvar lækna sé þörf. Umhverfið sjálft og viðhorf manna ræður því. Það er hægt að nefna svo mörg dæmi þess, að mannfjöldinn sjálfur ræður engu um það, hvort læknis er þörf. Það má nefna Hafnarfjörð og Reykjavík. Þar er mikill mannfjöldi, og þar eru nógir læknar. En aftur á móti eiga íbúar í Ólafsfirði og Þorgeirsfirði og Grímsey, þó að fáir séu, einstaklega erfiða aðstöðu. Er það nokkur, sem vill í alvöru segja, að þessar sveitir ættu að leggjast niður? Þarna lifa 146 manns. Í Grímsey hefur það komið fyrir, að maður veiktist og þurfti að senda eftir lækni. Símað var til Húsavíkur, en læknirinn þar sagðist ekki geta komið, af því að veður var svo vont. Það var loks fenginn læknir frá Siglufirði, og kostaði 1200 kr. að sækja hann þangað. Væri ekki nokkur ástæða til að athuga, hvort ekki væri rétt að setja löggjöf, sem viðurkenndi Grímsey líka rétt til læknis? Það er ekki mannfjöldinn einn, sem ræður, heldur aðstæður. Ég er viss um, þegar þess er gætt, að í Grímsey er hvorki læknir né yfirsetukona, að rétt er að athuga, hvort ekki ætti að hafa þar lækni, sem líka kann störf yfirsetukonu. Ég vil beina því til n., hvort það sé ekki atriði til athugunar.

Þegar verið er að tala um, að héraðið á Snæfellsnesi hafi 640 íbúa og Grindavík og Keflavík svo og svo marga, þá er það ekki aðalatriðið, heldur hvort héraðið út af fyrir sig, sem á og má lifa, fái kost á því að fá lækni, sem þar situr. Ég veit, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að hérað, sem að öðru leyti hefur möguleika til lífsins, en hefur ekki lækni, verði leyst upp. Það verður a.m.k. að hafa möguleika til þess að hafa samband við lækni.