19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og hv. 3. landsk. hefur þegar talað um, hef ég borið fram brtt. við 1. gr. frv., og felur sú breyt. í sér ekkert annað en það, að ráðh. sé því aðeins heimilt að setja það skilyrði fyrir viðurkenningu fjórðungssjúkrahúss, að sveitarfélög í grennd við sjúkrahúsið gerist aðilar að rekstri sjúkrahússins, að það bæjar- eða sveitarfélag, sem sjúkrahúsið er reist í, óski eftir slíkum félagsskap við önnur bæjareða sveitarfélög eða nærliggjandi sýslur. Ég hef borið þessa brtt. fram af þeirri ástæðu, að mér er kunnugt um, að a.m.k. bæjarstjórn Akureyrar mundi síður en svo óska eftir því, að nærliggjandi sýslur væru aðilar að byggingu sjúkrahússins á þann hátt, að þær ættu hlut í húsinu, þ.e.a.s. legðu fram hluta af stofnfé og þá að sjálfsögðu, ef þær gerðu það, hefðu einnig þátttöku í stjórninni og þannig bein áhrif á rekstur sjúkrahússins. Þessi afstaða bæjarstjórnar Akureyrar er til komin vegna þess, að Akureyrarkaupstaður hefur áður fengið nokkra reynslu af því að reka sjúkrahús á þennan hátt, því að á tímabili áttu Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla sameiginlega gamla sjúkrahúsið, sem nú er á Akureyri, en það er orðið of lítið og úrelt, og þarf því að byggja nýtt sjúkrahús í staðinn. Það reyndist þannig, að það torveldaði rekstur sjúkrahússins, að tveir aðilar ættu þannig að stjórna því. Bæjarstjórn Akureyrar leit einnig svo á, og ég er líka persónulega þeirrar skoðunar eins og nú standa sakir, að það mundi verða til að draga enn þá meir á langinn, að reist verði nýtt sjúkrahús á Akureyri, ef því yrði á þann veg háttað, að ráðh. notaði þá heimild, sem nú er í frv. til að setja það skilyrði fyrir stuðningi ríkisins við sjúkrahúsið, að Eyjafjarðarsýsla og sennilega líka Suður-Þingeyjarsýsla yrðu beinir eigendur og aðilar að byggingu og rekstri sjúkrahússins.

Það er að vísu rétt, sem hv. 3. landsk. tók fram, að sú breyt., sem ég legg til, að gerð verði. getur haft nokkur áhrif á fjárframlög ríkisins til sjúkrahússins, þ.e.a.s. hún hefur engin áhrif á fjárframlög ríkisins til byggingar sjúkrahússins. Það er tilskilið hlutfall, hvað ríkið á að greiða til þess, og það framlag mundi ekkert breytast. þó að till. væri samþ. Hins vegar mundi það vera fjárhagslegur hagur fyrir Akureyri, ef sýslurnar yrðu skyldar til að taka þátt í byggingunni, því að þær yrðu þá að sjálfsögðu að leggja fram nokkurn hluta þess, sem ríkið leggur ekki fram í stofnkostnað, sennilega þá í hlutfalli við íbúafjölda þessara héraða, þannig að út frá því sjónarmiði yrði það fjárhagslegur hagur fyrir Akureyrarbæ, að sýslan yrði með. En þrátt fyrir það held ég, að megi fullyrða, að afstaða bæjarstjórnar Akureyrar er sú, að hún óskar ekki eftir félagsskap sýslnanna um byggingu sjúkrahússins.

En varðandi þann halla, sem ríkissjóður ætti að greiða vegna legu utanhéraðssjúklinga, a.m.k. upp að vissu marki, þá gæti sá kostnaður orðið meiri samkvæmt minni brtt., eins og hv. 3. landsk. tók fram, vegna þess að ef þessi tvö sýslufélög yrðu meðeigendur að sjúkrahúsinu, yrðu sjúklingar úr þessum sýslum ekki taldir utanhéraðssjúklingar, og þess vegna yrði það fé minna, sem ríkissjóður yrði að leggja fram í þessu skyni. Hins vegar býst ég við, að fyrir Akureyri hefði þetta atriði ekki nein fjárhagsleg áhrif, vegna þess að ef sýslurnar væru í félagi um rekstur sjúkrahússins og halli yrði á rekstri þess, þá yrðu þær að taka þátt í þeim halla, sem yrði af legu þeirra sjúklinga, sem búsettir væru í þeim sýslum, svo að sá halli kæmi ekki á Akureyrarbæ, heldur kæmi það á sýslurnar, svo að fjárhagslegi munurinn gæti orðið sá, að kostnaðurinn, sem viðkomandi sýslur ættu að hafa vegna halla af legu sjúklinga úr þessum sýslum, kæmi undir öllum kringumstæðum samkvæmt minni till. á ríkið, og það gætu orðið þau auknu útgjöld, sem ríkið hefði af þessu. En þótt af þessu gætu orðið einhver aukin útgjöld fyrir ríkið, þá álít ég hitt tæplega réttlátt að þröngva bæjar- eða sýslufélögum til að hafa félagsskap við önnur sveitarfélög um slík fyrirtæki sem þetta, ef þau vilja það ekki. Það má náttúrlega segja, að það sé ekki líklegt, að ráðh., sem með þessi mál fer á hverjum tíma, mundi nota þannig heimildina gegn vilja fjölmennra bæjareða sýslufélaga. En ef gengið er út frá, að hann mundi ekki gera það, þá er engin ástæða til að hafa slíka heimild í l., ef aðeins ætti að nota hana, ef það væri ósk viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags. Þó að það kynni að fara svo, að það væri einhver fjárhagslegur ávinningur fyrir ríkið að þröngva þannig bæjar- og sveitarfélögum til samstarfs á þessu sviði, þá álít ég það tæplega viðeigandi fjáröflunaraðferð fyrir ríkið, heldur ætti ríkisstj. í þessu máli að fara eftir því, sem viðkomandi bæjar- og sýslufélög teldu sér hentast, og þá ekki sízt eins og mér skilst, að mundi verða í þessu tilfelli, að þetta mundi ekki hafa í för með sér neinn fjárhagslegan ávinning fyrir Akureyrarkaupstað, heldur það gagnstæða. En þrátt fyrir það tel ég, að Akureyrarbær mundi kjósa að leggja á sig meiri fjárhagsleg útgjöld við bygginguna til þess að geta verið einn um það, hvernig byggingunni er hagað, að vísu með samþykki viðkomandi yfirvalda, heilbrigðisstjórnarinnar, og einnig hvernig rekstrinum er hagað.

Eins og ég sagði, þá miðar þessi brtt. eingöngu að því, að sú heimild, sem ráðh. er gefin, verði aðeins notuð eftir ósk viðkomandi bæjar- og sveitarfélags, og ég, eins og ég hef þegar tekið fram, tel tæplega viðeigandi af löggjafanum að hefta svo frelsi bæjar- og sveitarfélaga og þeirra óskir séu ekki fyrst og fremst látnar ráða í þessu efni.