19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Jónas Jónsson:

Ég vil leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti þessarar d. stilli svo til, þegar 3. umr. fer fram um þetta mál, að hæstv. heilbrmrh. fengi tækifæri til að vera við, því að þetta mál er þannig, að það getur haft þýðingu viðvíkjandi ýmsum atriðum, að hæstv. ráðh. geti gefið skýringu á, hvernig ríkisvaldið lítur á þessi l., ef samþ. verða.

Ég ætla að segja það strax, að ég álít, að sumt í þessu frv. sé til bóta, sérstaklega viðvíkjandi læknisbústöðunum og auknum styrk til þeirra, sem er mjög nauðsynlegt, eins og málum er nú háttað. Aftur á móti álit ég, að ákvæði frv. viðvíkjandi fjórðungsspítölunum séu nokkurn veginn svo slæm sem mest getur verið, því að þau lúta að því að gera fjórðungum landsins nokkurn veginn eins erfitt fyrir í þessu efni og hugsanlegt er, sérstaklega þeim, sem lengst eru komnir, en það eru Norðlendingar. Ég mun því flytja við 3. umr. brtt. í þá átt, að frv. gæti orðið framkvæmanlegt fyrir Akureyrarbæ og á þann hátt, sem Akureyrarkaupstaður mundi telja viðunanlegt í þessu efni.

Ég vil í fáum dráttum rifja upp gang og meðferð þessa máls. Hv. þm. Ak. ber fram frv. um spítala á Akureyri. Mþn. í heilbrigðismálum gaf álit sitt um frv., og var það mjög aðgengilegt fyrir Akureyri. Þar var gert ráð fyrir, að á Akureyri yrði fjórðungsspítali kostaður að ¼ af ríkinu og 3/4 annars staðar að. Í þessari n. var m.a. landlæknir. Svo þegar farið er að ræða frv. hv. þm. Ak., þá snýst landlæknir sjálfur og að því er virðist meðnm. hans, og upp úr einhverjum skrýtnum graut, sem þessir menn gera, kemur þetta frv. á þskj. 657.

Til þess að gera nokkra grein fyrir, hvernig þetta mál horfir, er það fyrst að segja. að það er alls ekki læknadeild Háskólans að þakka, að hér er kominn landsspítali í Reykjavík, heldur duglegum konum í Reykjavík, sem hófu fyrir mörgum árum samskot til að fá spítalann, eins og konur á Akureyri og karlar líka hafa hafizt handa um samskot. Það kom svo að lokum. að kvenfólkið í Reykjavík hafði safnað svo miklu fé, að það var ekki annað hægt en að koma á móti því, og þá kemur ríkissjóður og leggur fram 3/4 hluta stofnkostnaðarins og tekur að sér reksturinn. Þess vegna er það misvísandi, sem mætti ráða af gögnum, sem liggja fyrir á þskj. 657, að halda, að Landsspítalinn hafi sérstaklega verið reistur fyrir Háskólann.

Á Akureyri er spítali, sem Guðmundur Hannesson hafði forgöngu fyrir að setja á stofn um aldamótin. Þessi spítali hefur nú starfað í rúm 40 ár og hefur raunverulega verið landsspítali. Hann hefur ætið haft ágæta lækna, svo ágæta, að t.d. uppskurðir viðvíkjandi vissri tegund af berklum hafa alls ekki verið gerðir nema þar. Þetta hús er nú orðið gamalt og allt of lítið, alveg eins og við þekkjum frá Kleppi. Þar er mörgum sjúklingum safnað saman, sérstaklega þeim, sem þarf að skera upp við berklum. Svo kemur landlæknir og n. og hugsar sér, að þetta sé eitthvert smáatriði fyrir þessar sveitir. Er það fullkomin vanþekking og jafnvel það, sem verra er. Þessir háu herrar skilja ekki og láta sér ekki detta í hug, að það muni enginn friður verða í heilbrigðisstjórninni, fyrr en búið er að koma þessu máli fyrir á heppilegan hátt. Vil ég þá snúa mér til hv. 3. landsk., sem er forstjóri tryggingarmálanna. Nú er búið að gera hér miklar breyt. og umbætur á tryggingarmálunum. En hvar eru spítalarnir? Landsspítalinn rúmar ekki helminginn af þeim, sem vilja komast þangað. Hvaða meining er af þeim, sem standa að sjúkratryggingunum, að gera sífellt dýrari og dýrari tryggingarkerfi, en hugsa ekkert um spítalaplássið? því að það skulu þeir góðu herrar vita, að meðan þeir hugsa ekkert um nauðsynina á því að koma upp sjúkrahúsunum, þá geta þeir ekkert gert. Það er í fullu ósamræmi að hækka styrk til trygginganna og eiga svo ekki þak yfir höfuðið á þeim, sem koma utan af landinu og verða að leggjast undir læknisaðgerð. Þessi löggjöf er því þannig, að þar stangast allt á.

Nú vil ég beina því til hv. frsm., 3. landsk. þm., hvaða réttlæti honum finnist í því, að hér í Reykjavík, þar sem fyrsta fjórðungsspítalanum er hrundið áleiðis til framkvæmda af borgurum þessa bæjar og nokkrum öðrum, að hver legudagur kostar hér 15 kr., en á Akureyri og öðrum spítölum úti um land 25 kr. Hvernig getur maður hugsað sér, að berklasjúklingar, sem fara til Akureyrar héðan að sunnan til aðgerðar, eigi að þurfa að borga 25 kr. á dag þar, eftir kannske að hafa verið hér á spítala, þar sem þeir hafa ekki þurft að borga nema 15 kr. á dag, þar sem nú er ekki hægt að gera meiri háttar aðgerðir hér á landi á berklasjúklingum nema á Akureyri? Það er ekki með neinni sanngirni hægt að gera ráð fyrir því, og það er ekkert vit í því. Þeir, sem vilja það. geta það ekki af öðru en þröngsýni eða af því, að þeir vilja ekki setja sig inn í málið eða taka rökum.

Ég kem þá að því, sem í raun og veru var komið á fastan grundvöll í áliti mþn., sem hafði gert ráð fyrir því, að hið opinbera tæki þátt í þessum framkvæmdum að 3/4 hlutum, en viðkomandi héruð að 1/4 hluta. Það er ekki hægt að lita á Landsspítalann öðruvísi en spítala fyrir Reykjavík og Suðvesturland. Því að ef hann væri fyrir Háskólann fyrst og fremst, þá mundi Reykjavík, Árnessýsla, Borgarfjörður og aðrar næstu sveitir við Reykjavík vera búnar að byggja sinn spítala. En að þessi héruð eru ekki búin að því, er af því, að Landsspítalinn notast þeim sem fjórðungsspítali. — Ef menn koma svo að því að vilja halda því fram, að það sé kennslan ein, sem geri það nauðsynlegt, að kostað sé hlutfallslega meiru til Landsspítalans af hinu opinbera heldur en spítala í hinum landsfjórðungunum, þá er því til að svara, að til þess að læra að skera upp við berklum. þá er ekki hægt fyrir stúdenta að fara annað hér á landi en til Akureyrar. Ef því hér væru ekki hleypidómar að verki, þá ættu að vera 4 fjórðungsspítalar á landinu, einn í Reykjavík, einn á Ísafirði, sá þriðji á Akureyri og hinn fjórði í Múlasýslum. Og á öllum þessum stöðum mundu að jafnaði vera læknar, sem hver á sínu sviði gerðu eitthvað svo vel, að til þeirra þyrfti að leita annars staðar að af landinu, eins og að jafnaði hefur verið um Akureyri. Þess vegna er það, að það er alveg óskiljanlegt, hvernig þessir menn, sem komnir voru inn á. þessa skynsamlegu niðurstöðu viðkomandi hlutfalli því, sem hið opinbera skyldi greiða af kostnaði við þessar framkvæmdir, gátu farið inn á að gera héruðunum þessar framkvæmdir erfiðari. Þeir máttu vita, að Akureyri gat ekki fengið neina peninga til spítalabyggingar annars staðar að en frá fólkinu þar, sem spítalinn á að byggjast, og frá fólkinu í næstu héruðum. Það var því það fyrsta, sem gert var til þess að auka e:rfiðleika fyrir þetta fólk, að láta byggingarkostnaðinn verða of mikinn, sem það yrði að bera. Annað var að tengja saman erfiðleika, sem ekki er hægt fyrir svona fyrirtæki að standa undir. Og svo var það hið þriðja að gera ráð fyrir, að aðilar standi undir þessum kostnaði a.n.l., sem þeir ekki geta staðið undir og alls ekki eiga að bera.

Ég vil taka fram, að brtt. hv. 4. landsk. þm. er mjög til bóta. Og vil ég aðeins bæta við hans röksemdir því, að það er eins og allt sé í meðferð þessa máls gert til þess að lítillækka Akureyri, svo sem t.d. það að taka ekki fram, að þessi fjórðungsspítali fyrir Norðurland eigi að vera þar.

Hann gæti eftir frv. alveg eins verið á Hofsósi eða á Skagaströnd. Það er eins og það sé afbrýðisemikennd tilhneiging manna hér til þess að bægja næststærsta kaupstað landsins frá því að hljóta viðurkenningu í þessu efni, því að eftir frv. og brtt. á að þurfa að sækja um það til ráðh., hvar aðalspítalinn fyrir Norðurland skuli vera í Norðlendingafjórðungi, rétt eins og það sé nokkur efi á því. Nú hagar svo til, að sumpart í Akureyrarbæ og sumpart í nágrenni bæjarins er fólkið búið að leggja á sig miklar fórnir vegna þessara framkvæmda. Akureyri er búin að gefa mikið fé til þessa, og Kaupfélag Eyfirðinga er búið að gefa stórmikið líka í þessu skyni. Og þetta svarar alveg til þess, sem gert var hér í Reykjavík, að það er nú þegar til, með þessum samskotum, 1/4 partur af væntanlegum byggingarkostnaði spítalans.

Viðkomandi frv., eins og það nú liggur fyrir, get ég tekið fram nokkur atriði til skýringar. Fyrst og fremst mun það vera ákaflega erfitt að fá t.d. Akureyrarkaupstað og Eyjafjarðarsýslu og aðra sýslu til til þess að setja á stofn svona fyrirtæki saman. Í öðru lagi er slík samvinna erfið, af því að yfir svona fyrirtæki á að hafa eina stjórn, en ekki margar. Og hvernig kæmi þetta út fyrir Þingeyjarsýslu? Hún er búin að byggja mjög hæfilegt sjúkrahús fyrir part af sýslunni á Húsavík. Á það sjúkrahús er hægt að taka 15 sjúklinga. Það var byggt af mikilli ráðdeild og kostaði 70 þús. kr. fyrir nokkrum árum, er það var reist, og fullnægði eðlilegri þörf Suður-Þingeyjarsýslu og kannske Norður-Þingeyjarsýslu. Og fjórir hreppar hafa einn lækni á Breiðamýri, og þar var gamalt læknishús, sem ekki svaraði kröfum tímans, og reyndist því erfitt að fá þangað lækni. Þá lögðu héraðsbúar fram fé og byggðu læknisbústað fyrir 200 þús. kr., fjórir hreppar. Ef svo ofan á þetta ætti að leggja það á þessa menn, sem eru búnir að byggja alveg hæfilegt sjúkrahús fyrir sig og viðráðanlegt og búnir að byggja læknisbústað svo dýran eins og ég hef sagt, — ef þeir ættu svo að leggja sérstaklega þar á eftir fram fé í landssjúkrahús, þá væri það að mínum dómi ekki sanngjörn meðferð mála. Það virðist því eins og bláókunnugir menn hafi staðið að því að taka saman þetta frv., sem ekkert vissu um það, hversu myndarlega og ráðdeíldarsamlega Þingeyingar eru búnir að koma þessum málum fyrir hjá sér fyrir sitt hérað. Það er því þannig einnig eftir brtt. hv. 4. landsk. þm. alveg lokað fyrir það, að Akureyringar liti við þessu. Og þá fá Reykvíkingar og aðrir, sem koma til veru á spítalann á Akureyri, að vera lengur yfir geðveika fólkinu í spítalanum. Og það er ekki þeim fyrir norðan að kenna eða sjúklingunum, heldur þeirri heilbrigðisstjórn, sem undirbúið hefur þetta frv.

Ég vil svo segja fáein orð um Austfirði. Austfirðingar hafa haft áhuga fyrir því að hafa hjá sér eitt vandað sjúkrahús, sem ríkið ræki sem fjórðungssjúkrahús. Múlasýslurnar hafa að vísu nokkur smá sjúkrahús í kaupstöðum, en auðvitað ekkert, sem hægt er að bera saman við það. sem bezt á að vera hægt að gera í því efni. Er það nú of mikið, að þessar sýslur, svona langt frá Reykjavík og einnig langt frá Akureyri og eru heimur út af fyrir sig, fái hjá sér sjúkrahús t.d. fyrir 30 sjúklinga, sem til væri vandað eins og Landsspítalans? Ég segi nei. Slíkt er óhjákvæmilegt að gera fyrir þessi héruð, ef ekki á beinlínis að gera þessu fólki ómögulegt að lifa. Og sama er að segja um Vestfirði. Það eru ekki allir Vestfirðir og ekki sunnan Ísafjarðar, sem mundu sækja til Ísafjarðar til að nota sjúkrahús þar. En það er þó allstórt svæði, sem hefur notað þennan tiltölulega myndarlega spítala, sem Ísfirðingar hafa reist, sem þó þarf endurbóta við og Ísfirðingar óska, að verði endurbættur.

Ef ekki verður af yfirvöldum þessa lands breytt um hugsunarhátt í þessum efnum, þannig að byggðir verði fjórðungsspítalar, sem séu nokkurs konar landsspítalar, hver í sinum landsfjórðungi, að öðru leyti en því, að spítalinn í Reykjavík verður stærstur, þá verður aldrei varanlegur friður um þessi mál, og sízt fyrir þann ágæta landlækni, sem svo lítið gott hefur lagt til þessara mála.

Ég vil svo að síðustu taka fram, að ég hugsa mér við 3. umr. að bera fram brtt., ekki af því að ég búist við því, að hún verði samþ., heldur til þess að það komi hér undir atkv., hvort menn vilja stofna til rekstrar á spítala, sem Akureyringar treysta sér til að standa undir. En að slíkri brtt. felldri. hvað er það, sem hér fer fram? Reykjavík með um 40 þús. íbúa og Sunnlendingafjórðungur eru búin að fá sjúkrahús, sem kostað er af ríkinu að öllu leyti. En samhliða þessu á það að vera mögulegt fyrir Akureyri, ef hún er búin að gera samning við Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu um þátttöku í byggingu sjúkrahúss, að það verði samþ. sem fjórðungsspítali eftir ákvæðum frv. um það að öðru leyti. Hér er mjög mismunað fólki. eftir því hvar það býr, auk þess sem ekki á að haga þessu svo, þar sem Þingeyingar eru búnir að koma upp spítala hjá sér og Akureyri og Eyjafjarðarsýsla eru búnar að leggja fram fé sérstaklega til þessara framkvæmda. En segjum nú, að Akureyri ætti að byggja 100 rúma spítala, sem yrði nokkuð nákvæmt hlutfall á móts við Landsspítalann, miðað við þörf á hverjum stað. Þá ætti. Akureyri bókstaflega að bera uppi 100 rúma spítala. En Reykjavík aftur á móti, með 150 rúma spítala, á að fá ekki aðeins allan halla. borgaðan, heldur hvern legudag borgaðan að 2/5 hlutum. Þetta er svo mikil fjarstæða, að það er ekki nokkur möguleiki til þess, að slíkt geti haldizt. Og ég býst við, að það fari svo, að Akureyri byrji á þessum spítala eins og hann í raun réttri á að vera og komi upp nokkrum útveggjum og segi svo við þjóðfélagið: Þið getið valið um, hvort þið viljið láta ykkar sjúklinga liggja úti eða hvort þið viljið gera ykkar skyldu, eins og þið eigið líka að gera á Vestfjörðum og í Múlasýslum, svo að þessi spítalabygging verði framkvæmanleg. — Ég treysti því, þegar hv. 3. landsk. þm., forkólfur tryggingamálanna hér, athugar málið, þá sjái hann, að það er betra að gera eitthvað af viti nú í þessu máli heldur en að standa í baráttu við fólk í þrem fjórðungum landsins, þangað til réttur er hlutur þess með réttlátum framkvæmdum í þessum málum.