28.01.1944
Neðri deild: 7. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (3322)

18. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að mestu leyti samhljóða frv. um breyt. á tekju- og eignarskattsl., sem lá fyrir síðasta þ., en þó hafa verið gerðar nokkrar smábreyt. á formi þess frá því, sem það var eftir 3. umr. í Nd. Skal ég koma að þeim breyt. síðar.

Frv. þetta gerir ráð fyrir allvíðtækum breyt. á skattal., en ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög ýtarlega út í einstakar breyt., vegna þess að svo stutt er, síðan þetta mál var hér til umr. í d., og þessar breyt. voru þá allar ræddar mjög ýtarlega. En aðalbreyt., sem frv. fer fram á, eru þær, að gert er ráð fyrir, að skattar lækki mjög verulega á lágtekjumönnunum, með því að hækkaður verði persónufrádrátturinn. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að skattfrelsi almennra hlutafélaga, þeirra sem ekki reka útgerð, verði afnumið. Í þriðja lagi miðar frv. að því að endurnýja nýbyggingarsjóðina og einnig þá að því að tryggja það betur en gert hefur verið, að það fé, sem lagt verður í nýbyggingarsjóðina, gangi til þess, sem til er ætlazt, — að endurnýja skipaflotann.

Þetta eru veigamestu atriðin, sem frv. felur í sér, en auk þeirra er um allmargar breyt. að ræða, sem öllum hv. þm. eru kunnar frá umr. um þetta mál fyrir 1½ mánuði, þegar þetta mál lá hér fyrir. — En sú breyting, sem við flutningsmenn höfum gert á þessu frv. frá hinu hliðstæða frv. á síðasta þ., er einkum sú að fella niður þá takmörkun, sem þar var gert ráð fyrir á framlagi til nýbyggingarsjóðanna. Þar var gengið út frá því, að félög, sem eigi hafa jafnháan nýbyggingarsjóð og hæfilegt vátryggingarverð skipa félagsins næmi, skyldu ekki hafa heimild til skattfrelsis nýbyggingarsjóðsfjár niður í 1/6 af nettótekjum félagsins, og sams konar takmörkun var þá sett um framlag til nýbyggingarsjóðs hjá þeim aðilum, sem höfðu lagt 2 millj. kr. í nýbyggingarsjóð. Þessar takmarkanir í frv. höfum við fellt niður, og í frv., eins og það liggur nú fyrir, er einnig gert ráð fyrir því, að allir aðilar, sem útgerð stunda, bæði einstaklingar og sameignarfélög, hafi rétt til þess að leggja 1/3 af nettótekjum sínum skattfrjálst í nýbyggingarsjóð og það sé ekki á nokkurn hátt takmarkað við það, hvort nýbyggingarsjóður félagsins er kominn upp fyrir það að vera samsvarandi hæfilegu vátryggingarverði skipanna. — Þetta eru aðalbreyt., sem gerðar eru frá því frv., sem lá fyrir síðasta þingi.

Í lok síðasta þings var svo komið afgreiðslu þessa máls, að hv. Nd. hafði afgr. frv. alveg frá sér, eftir að það hafði fengið verulega athugun. Þó fór svo, að frv. fékk ekki lokaafgreiðslu og náði ekki fram að ganga. Það virtist þó vera þingmeirihl. fyrir þeim breyt., sem þarna var farið fram á, og er því hægt að telja miklar líkur til þess, að hægt verði að fá þetta frv. samþ., ef marka má þær yfirlýsingar, sem komið hafa fram frá þrem flokkum í þinginu um þessar breyt. Sá eini flokkur, Sjálfstfl., sem stóð gegn þessum breyt., bar, að því er mér skilst, sérstaklega fyrir sig það ákvæði, sem ég var að lýsa, takmörkun á framlagi til nýbyggingarsjóðanna. En það er fellt niður í þessu frv., og því finnst mér ennþá fremur ástæða til þess, að þetta frv. gæti nú fengið greiða afgreiðslu og náð samþykkt nú á þessu þingi.

Eins og ég sagði í upphafi, er ekki ástæða til þess að ræða þetta mál ýtarlega nú, vegna þeirra ýtarlegu umr., sem fram fóru um það á síðasta þ. Ég vildi svo óska þess, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.