09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

27. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Áhugi hv. þm. Borgf. að koma þessu frv. fyrir kattarnef er auðsær. Fyrst þegar það kom hér fram, sagði hann: „Þetta verðum við að drepa“. Hann sló því fram áðan, að ég hefði verið honum sammála. Það má svo sem allt segja, þó að það sé andstætt sannleikanum„ sem blasir við augum allra manna.

Ég benti á, að ástæðan fyrir því, að læknar fengjust ekki sums staðar, væri sú, að það þyrfti að bæta aðstöðu þeirra. Sú aðstaða mundi víðast hvar batna, ef héruðin væru minni en þau eru. Það kom einmitt fram í ræðu hv. þm. Borgf., að þegar neyðin rekur að, þá leita menn til annarra. lækna. Allt er sprottið af því sama, að aðstaða læknanna í dreifbýlinu er svo erfið.

Þá er nú þetta með skrautfjaðrirnar. Voru það ekki „skrautfjaðrir“, að hann var með því að stofna hérað í Grindavík, af því að þar væri þéttbýli, þó að hann væri rétt búinn að segja, að læknar væru „plága í þéttbýlinu“?