29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3330)

33. mál, lendingarbætur á Hellissandi

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Eins og nál. ber með sér, hefur sjútvn. litið svo á, að ekki bæri að samþ. málið að svo stöddu, og skal ég gera grein fyrir, af hvaða ástæðum.

Vitamálastjóra var sent frv., og fylgir hér með álit hans. Við ræddum einnig við flm., og kvaðst hann mundu gera sig ánægðan með, að frv. yrði vísað frá, ef ábyrgð ríkisins fengist eftir öðrum leiðum.

Annars eru nú ríkjandi hin mestu vandræði í þessum málum á Hellissandi. Tvisvar á sólarhring hverjum fjarar undan bátunum, og þeir leggjast flatir. Sýnilegt er, að vonlaust er að gera nothæfa höfn á þessum stað. Nú hefur verið rannsakað, hvort ekki væri til álitlegri staður einhvers staðar í nágrenninu, sem líka mætti nota handa Ólafsvík. Þarna úti fyrir eru ein hin beztu fiskimið og því stórtjón að því, að ekki er viðunanleg höfn. Vitað er, að kaupstaður var í Rifi að fornu. Þar hlýtur því að hafa verið skipalægi. N. hefur fylgzt með rannsóknum í þessu efni, en þeim er enn ekki að fullu lokið. Þó má fullyrða, að þarna í Rifi séu einhver hin beztu hafnarskilyrði. Þarna er rif, sem með litlum tilkostnaði má gera að skjólgarði. Á höfninni sjálfri er um fimm metra dýpi, en mikið af henni hefur fyllzt af sandi, sem moka þarf burt. Enn þá er ókannað, hve stór höfnin getur orðið. Ég hef átt tal við fiskimenn þarna úr nágrenninu, og segja þeir þetta örugga höfn. Nú hef ég nýverið fengið bréf frá hlutaðeigandi sveitum. Eru þar allir sammála um að fresta öllum aðgerðum á Sandi og Ólafsvík, en bíða eftir fullnaðarrannsókn á Rifshöfn.

Þetta eru aðalástæðurnar fyrir gerðum sjútvn. í þessu máli. En með því að enn þá er ekki neitt fullráðið um höfn, óska ég eftir, að frv. verði ekki fellt, en umr. um það frestað.