22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Ég gat þess við fyrri hl. þessarar umr., að bæjarstjórn Akureyrar mundi vera því mjög mótfallin, að ákvæði það, sem heimilar ráðh. að skylda sveitarfélög til þess að standa saman að sjúkrahúsi, stæði í frv. Síðan hefur borizt skeyti frá bæjarstjórn Akureyrar varðandi þessi sjúkrahúsmál. En í þessu skeyti er staðfest þessi afstaða bæjarstjórnar, sem ég hélt fram, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þetta skeyti. Það hljóðar svo:

„Bæjarstjórn hefur á fundi sínum í dag samþ. einu hljóði eftirfarandi:

Bæjarstjórn beinir þeirri eindregnu ósk til hins háa Alþ., að það samþykki frumvarp Sig. E. Hlíðar um ríkisspítala á Akureyri eða til vara þáltill. Jónasar Jónssonar um, að ríkið greiði 3/4 hluta byggingarkostnaðar sjúkrahússins. Fáist hvorugu þessu framgengt, að þá verði samþ. frv. það um skipun sjúkrahúsamála, sem liggur fyrir.“

Það er sagt, að afstaða bæjarstj. Akureyrar sé þannig að hún óski frekar eftir því að samþ. verði frv. það, sem hv. þm. Ak. flytur hér í þinginu. og þar næst, ef það ekki fæst, að samþ. verði þáltill. hv. þm. S.-Þ. um það að Akureyri fái þá sérstöðu að fá greidda 3/4 stofnkostnaðar við byggingu sjúkrahúss þar, og fáist það ekki heldur, að þá verði samþ. frv. það, sem nú liggur hér fyrir. Leggur bæjarstj. Akureyrar áherzlu á það, að numið verði úr l. það ákvæði, sem brtt. mín fer fram á, að numið verði burt. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi hér fram til sönnunar því. að ég hafi farið með rétt mál, þegar ég hélt því fram, að afstaða bæjarstj. væri þessi varðandi það atriði, sem brtt. mín fjallar um.

Hv. 3. landsk. hefur bæði nú og eins fyrr í ræðum sínum hér talið, að þessi brtt. mín mundi í framkvæmd rekast á ákvæði 6. gr. sjúkrahúsal. frá 1933, og vildi í tilefni af því óska eftir, að ég tæki till. aftur til 3. umr., til þess að n. gæti athugað það frekar. Ég hef ekkert á móti því að taka till. aftur til 3. umr., ef hægt væri að athuga þetta nánar. En mér sýnist persónulega, að það mundi ekki verða árekstur milli ákvæðisins í brtt. minni og ákvæðisins í 6. gr. l. eins og nú er. Varðandi viðskipti t.d. Akureyrar og þess hluta Eyjafjarðarsýslu, sem er í sama læknishéraði, þá skilst mér, að þar gæti verið um tvenns konar fyrirbæri að ræða á grundvelli 6. gr. l. Annars vegar er það Akureyri. sem ætlar að reisa sjúkrahús, er verða mundi notað einnig af þeim hluta Eyjafjarðarsýslu. sem er í sama læknishéraði, og Akureyri óskaði eftir því, að Eyjafjarðarsýsla tæki þátt í kostnaðinum við að reisa og reka sjúkrahúsið. en Eyjafjarðarsýsla vildi það ekki. Samkvæmt 6. gr. l. væri ráðh. heimilt að skylda Eyjafjarðarsýslu til þátttöku í þeim kostnaði með Akureyri. Nú liggur það fyrir samkv. skeytinu, að bæjarstj. Akureyrar óskar síður en svo eftir þessu, þannig að frá þessari hlið mundi verða árekstur vegna þessa ákvæðis. Hins vegar er hægt að hugsa sér. að sýslan mundi óska eftir því að verða þátttakandi í byggingu og rekstri sjúkrahússins, sem Akureyri ætlaði að reisa, og þó að Akureyri vildi það ekki, hefði ráðh., samkvæmt 6. gr. l., heimild til þess að skylda Akureyri til þess að verða við óskum frá Eyjafjarðarsýslu um að byggja og reka sjúkrahúsið sameiginlega. En við því er sá varnagli í niðurlagi þeirrar málsgr., sem um þetta fjallar, að til þess þyrfti meiri hl. héraðsbúa að vera innan þess sveitarfélags, sem að samþykktinni stæði. En nú er það staðreynd, að í þeim hluta Eyjafjarðarsýslu, sem er í sama læknishéraði og Akureyri, er ekki eins mikill fólksfjöldi og á Akureyri. Þannig yrðu ekki heldur fyrir hendi þau skilyrði, sem gr. setur, til þess að á þeim grundvelli yrði hægt að skylda Akureyri til þess að hafa Eyjafjarðarsýslu í þessu. gegn vilja Akureyrarkaupstaðar. Ég held því, að í framkvæmdinni mundi ekki verða árekstur þarna á milli hvað snertir viðskipti þessara aðila, sem ég hef borið fram brtt. vegna. En hins vegar hef ég ekkert á móti því, eins og ég gat um, að taka till. aftur til 3 umr., til þess að það megi athuga þetta nánar, því að það er ekki ætlun mín að koma af stað neinum vandræðum, heldur þvert á móti að koma ákvæðinu þannig, að ekki þurfi að verða árekstur milli þessara aðila, sem kynni að verða til þess að tefja þessar framkvæmdir, því að það er orðin þörf á því að bæta úr skorti sjúkrahúss fyrir Akureyri og nærliggjandi sveitir.