22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Jónas Jónsson:

Ég vil aðeins víkja fáum orðum að ræðu hv. 3. landsk. Hann telur, að það sé í sjálfu sér ekki neitt níðzt á Akureyrarkaupstað, þó að hann hafi fyrstur af öllum héruðum landsins reist stóran spítala og rekið hann lengi styrklaust og nú með styrk eins og gerist og þannig verið brautryðjandi um okkar spítalamál. Það, sem nú á að rétta að Akureyri, er löggjöf, þar sem ekki má nefna nafn Akureyrar, og það á að vera samstarf um stofnun og rekstur sjúkrahússins. Ég sé ekki beinlínis, hvaða ástæður geta legið til þess, að ekki megi nefna Akureyri í sambandi við fjórðungsspítala. Ég get ekki betur séð en hér sé verið að leika sér að því að láta líta svo út sem Akureyri eigi ekki að koma til greina, — það eigi að eyðileggja spítalamálið þar, þrátt fyrir stórkostleg samskot viðvíkjandi þessum stóra spítala. Þá kem ég að rekstrinum. Þar er ég samdóma hv. 4. landsk. og hans till. og eins því, sem bæjarstj. Akureyrar hefur símað, það er ekki hægt að hafa samfélag um þetta, og ég vil heyra hv. 3. landsk., frsm. n., skýra frá því, hvernig hann heldur, að stjórn Landsspítalans færi að, ef Reykjavík. Gullbringu- og Kjósarsýsla, Borgarfjarðarsýsla og Árnessýsla, þessi læknishéruð öll, ættu að vera saman um rekstur þess spítala. Það, sem farið er fram á um Akureyri, er alveg það sama og þetta væri gert, en þessi héruð nota Landsspítalann sem fjórðungsspítala af eðlilegum ástæðum. En það var ekki aðeins það, að ekki væri hægt að fá þetta samstarf héraðanna, þegar Landsspítalinn var reistur, heldur lagði Reykjavík ekkert fram og hefur ekki fengizt til þess að leggja neitt til þess. Þess vegna er það, að það er bæði hér á Suðurlandi og annars staðar þrautreynt. að ekki er hægt að fá þessa samvinnu. Ég hefði gaman af því, þar sem hv. 3. landsk. er gamall þm. fyrir Austurland, að hann segði okkur, hvernig ætti að ljúka við læknisbústaðinn á Egilsstöðum. En þar er gert ráð fyrir tveim læknum og sjúkrahúsi með 8 rúmum, en það er mjög dýrt að byggja, og ég held, að það mundi ekkert veita af því húsnæði, sem hv. þm. Barð. hefur minnzt á, og hefur hann þó sennilega miðað við öllu minni héruð en það. En ég sé ekki, að það sé mögulegt að leysa þetta mál á skynsamlegan hátt fyrir Austfirði nema með því að gera ráð fyrir, að þessi spítali verði reistur. En þetta stóra hérað, Fljótsdalshérað, á illa aðstöðu með lækni, en læknisvöntuninni mætti fullnægja á skynsamlegan hátt með litlum spítala, sem mætti stækka. Hitt er ókleift, að héraðið rísi undir þeim skilyrðum, sem hér er gert ráð fyrir. Þá furðar mig á því, hvað hv. heilbr.- og félmn. meinar með því að setja l., sem eru óframkvæmanleg, þegar verið er að setja þau, hvað þá síðar. En það, sem ber mest á milli mín og hv. frsm. heilbr.- og félmn., er það almenna viðhorf til heilbrigðismálanna í landinu. Það er enginn vafi á því, að þegar Landsspítalinn kom, var það mikil umbót frá því, sem áður var, og til hans hefur verið leitað af ýmsum góðum læknum til fyrirmyndar um ráðdeild í rekstri. En Landsspítalinn var reistur fyrir forgöngu kvenna í Reykjavík og síðan fyrir forgöngu þingsins, en ekki fyrir forgöngu Háskólans. og læknar eru þýðingarlausir fyrir þetta mál og hafa sumir frekar spillt fyrir því, því að þeir héldu, að það drægi frá sínum „praxis“ að byggja spítala. Það eru þess háttar menn, sem standa að þessu frv. nú. Þetta eru álíka viðbárur eins og þegar verið var að spilla fyrir Landsspítalanum. Svo kom góður spítali fyrir Reykjavík og fyrir landið vestanvert, og það var betri aðstaða fyrir þá sjúku, af því að þjóðfélagið lét byggja þarna góðan spítala. En aftur á móti er hvorki plássins vegna né staðhátta auðvelt fyrir sjúklinga af Austur- og Norðurlandi að koma hingað, og þess vegna miða fjórðungsspítalarnir að því, að til verði einn góður spítali fyrir hvern landsfjórðung.

Þetta miðar að því að gera alls staðar ólíft nema við Faxaflóa. Það á hvorki að leggja rafmagn né vegi nema þar. Þetta allt er einn þáttur þeirrar landauðnarstarfsemi, sem nú er haldið uppi. En ég held, að háttv. 3. landsk. ætti að endurskoða hug sinn og athuga, hvort þetta muni vilji þjóðarinnar. Hann vill, að á Akureyri sé byggður spítali fyrir 25 sjúklinga, enda þótt Akureyringar séu því mótfallnir á þann hátt, sem hér er lagt til.