26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Það hefur verið svo, að ég hef ekki haft tíma til að kalla saman heilbr.- og félmn. til fundar, en það hafði ég ætlað mér, áður en til þessarar umr. kæmi. Af þeim sökum sé ég þó ekki ástæðu til að biðja forseta að taka málið út af dagskrá. Ég hygg, að málið liggi ljóst fyrir. Ég vil aðeins greina hér frá skriflegri brtt. frá mér, sem ég hef ekki enn látið prenta. Mun ég lesa hana upp með leyfi hæstv. forseta. Brtt. er við fyrstu gr. frv., 2.–3. efnismálsgr.: Ef í hlut eiga sjúkrahús, er ráðherra viðurkennir sem fjórðungssjúkrahús, eitt á Vestfjörðum, annað á Norðurlandi og hið þriðja á Austurlandi, greiðir ríkissjóður allt að þrem fimmtu byggingarkostnaðar. Ef sveitar- (bæjar-, sýslu-) félag eða félög, sem ákveða að reisa eða þegar standa að viðurkenndu fjórðungssjúkrahúsi, óska þess, er ráðherra heimilt að úrskurða, að önnur sveitarfélög í grennd sjúkrahússins, er ætla má, að hafi þess samsvarandi not, takist á hendur eign og ábyrgð fyrirtækisins og gerist aðilar að rekstri þess samkvæmt ákvæðum laga þessara, enda eiga slík sveitarfélög kröfu á þátttökunni. — Þessi brtt. er efnislega samhljóða brtt. á þskj. 955, sem er breyting á sömu málsgr.

Breyting við 3. málsgr. er sú, að inn í málsgreinina bætist á eftir orðunum: „sem heimilisfastir eru utan þeirra sveitarfélaga, er að sjúkrahúsinu standa,“ orðin: eða átt gætu kröfu á að gerast aðilar að fyrirtækinu samkvæmt 2. málsgr. — Ef þessi brtt. verður samþ., er gengið inn á það sjónarmið, sem liggur til grundvallar brtt. á þskj. 874. En þar segir, að ekki skuli það sett að skilyrði, sem þar greinir, nema það sveitar- eða bæjarfélag, sem sjúkrahúsið er reist í, óski þess. en brtt. mín gengur lengra að því leyti, að hún gerir einnig ráð fyrir því, að slík sveitarfélög eigi jafnan kröfu til þátttöku, ef þau óska eftir því. Aftur lýtur síðari brtt, að því, að þegar ákveðið er, hverjir teljist utanhéraðsmenn, þá skuli ríkissjóður greiða allan halla af legu þeirra á sjúkrahúsinu, en þó komi ekki til greina íbúar þeirra héraða, sem átt gætu kröfu á að gerast meðeigendur að sjúkrahúsinu og vera með um rekstur þess.

Við skulum taka það sem dæmi, að reist verði sjúkrahúsið á Akureyri. Ef þessi brtt. verður samþ. og Eyjafjarðarsýsla eða sá hluti hennar, sem er innan læknishéraðsins, óskar að vera með Akureyrarkaupstað um byggingu og rekstur sjúkrahússins, þá er ráðh. heimilt að gera það að skilyrði fyrir að gera það að fjórðungssjúkrahúsi og greiða þar með 3/5 hluta af stofnkostnaði í stað 2/5. En ef sýslufélag óskar ekki eftir að gerast meðeigandi, þá greiðir ríkissjóður ekki fyrir sjúklinga þaðan það, sem kann að vanta á, að daggjöldin hrökkvi til að greiða fyrir þá á sjúkrahúsinu, eins og ríkissjóður greiðir fyrir utanhéraðsmenn almennt. Þetta mundi leiða það af sér, að Akureyri mundi gera annað tveggja: að ákveða nokkuð hærri daggjöld fyrir sjúklinga úr Eyjafjarðarsýslu eða semja við sýsluna, að hún greiddi styrk með sjúklingum þaðan eftir svipuðum reglum og ríkissjóður greiðir fyrir utanhéraðsmenn almennt. Ég tel þetta ákvæði fullkomlega eðlilegt, þegar þess er gætt, að flest sýslufélög á landinu hafa tekið á sig meira og minna þungar byrðar, til þess að koma upp sjúkrahúsum eða sjúkraskýlum. Og það er fullkomlega óeðlilegt, þegar þetta er athugað, að sýsla eins og Eyjafjarðarsýsla væri algerlega undanþegin slíkum kvöðum og eftir því sem hún færðist lengur undan að byggja sjúkrahús, þá greiddi ríkissjóður allan halla af kostnaði við sjúklinga úr sýslunni. Með því móti væri þeirri sýslu sköpuð betri aðstaða en öðrum, hvað snertir fjárframlög til heilbrigðismála.

Þessi till. er samin eftir till. frá landlækni, sem er þessum málum kunnugastur. Mæli ég því með því, að hún verði samþ.