16.02.1944
Neðri deild: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (3343)

34. mál, kennsla í vélfræði

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. — Ég ásamt hv. þm. Ísaf., hv. þm. Vestm. og hv. 11. landsk. þm. hef leyft mér að birta hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 71 23. júní 1936, um kennslu í vélfræði. Breyt. eru við 13. gr. þessara l. og þá um hið meira mótorvélanámskeið. Í l. eru þessi námskeið einvörðungu bundin við Reykjavík, en við flm. frv. ætlumst til, að slík námskeið skuli einnig haldin eftir tillögum Fiskifélags Íslands á Akureyri, Ísafirði, í Vestmannaeyjum og Neskaupstað, ef nægileg þátttaka fæst og önnur nauðsynleg skilyrði eru fyrir hendi.

Þróunin gengur öll í þá átt, hvað mótorbátaflota landsmanna snertir, að hafa stærri báta og stærri vélar. Minni mótorvélstjóranámskeiðin, sem haldin hafa verið víðs vegar á landinu, hafa veitt réttindi til vélgæzlu við allt að 150 hestafla vélar, en hið meira námskeið veitir hins vegar réttindi til vélgæzlu við 400 hestafla vélar.

Eftir þeirri skýrslu að dæma, sem forseti Fiskifélags Íslands gaf í útvarpserindi 24. f. m., hafa hin meiri námskeið verið haldin í Reykjavík fimm að tölu, síðan l. um þau voru sett 1936, og 42 vélstjórar hafa útskrifazt á þeim. Þessi námskeið hafa sýnilega verið illa sótt, og má vafalaust að miklu leyti því um kenna, að mönnum langt að er um megn að sækja slík námskeið í Reykjavík kostnaðarins vegna. Aðrir eru störfum hlaðnir og eiga erfitt með að losa sig við þau til þess að geta sótt hið meira námskeið í Reykjavík. Þegar þess er nú gætt, að margir þessara vélstjóra, sem útskrifuðust af hinum meiri námskeiðum, hafa ekki gerzt starfsmenn í sjálfum fiskiflotanum, heldur tekizt á hendur vélgæzlu í frystihúsum eða ráðið sig á vélaverkstæði, þá ætti öllum að vera Ijóst, að með jafnlítilli viðkomu eða fjölgun vélstjóra með meiri réttindum er þegar orðin stórkostleg ekla á þessum fagmönnum og verður enn tilfinnanlegri með hverju ári, sem líður.

Raddir heyrast nú með vélstjórum, að úr þessu verði að bæta með því að auka réttindi þeirra vélstjóra, sem minna próf hafa. Ég er þeirrar skoðunar, að sú leið sé mjög varhugaverð og hættuleg. Stærri vélar krefjast meiri fagþekkingar, svo að öryggi fáist. En að því stefnir frv. þetta. Ég vona því, að hv. d. sjái, að hér er nauðsynjamál á ferðinni, sem þarf skjótrar afgreiðslu við, og að þetta er sanngirnismál gagnvart öðrum landshlutum. Með þessum breyt. er hægt að bæta úr þeirri vélstjóraeklu, sem fyrir er, á einfaldastan og hagkvæmastan hátt.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.