31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Það er nú máske rétt hjá hv. 3. landsk., að ekki sé rétt að viðhafa langar umr. um þetta mál, þar sem búið er að ræða það nokkuð, og ég býst við, að hv. þdm. séu búnir að glöggva sig það á því. að frekari umr. breyti ekki afstöðu manna til neinna muna.

Ég vil þó segja örfá orð í tilefni af þeirri brtt., sem ég flyt á þskj. 874.

Í fyrri umr. um málið hélt hv. 3. landsk. því fram, að ákvæði þessarar brtt. kæmu í bága við 6. gr. sjúkrahúsal., eins og hún er nú. Ég andmælti því þá og hef ekki breytt þeim skilningi, að þetta geti farið saman. Hef ég utan þings leitað um það umsagnar tveggja lögfræðinga, sem sögðust álíta, að það mundu a.m.k. undir flestum kringumstæðum ekki verða árekstrar þarna á milli, svo að ekki er ástæða til að gera mikið úr þeim röksemdum, enda minntist hv. 3. landsk. ekkert á það nú í ræðu sinni.

Hitt er annað mál, að þetta verður nokkurt fjárhagsatriði, og kann það að valda nokkru um afstöðu hv. þm. til málsins.

Viðvíkjandi brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 961, þá tel ég, að ef hún yrði samþ., þá yrði mjög dregið úr þeirri fjárhagslegu aðstoð í mörgum tilfellum, sem með frv. er fyrirhugað að veita einstaka bæjum og sveitarfélögum til að reisa og reka sjúkrahús. Í fyrsta lagi er breyt. við 2. málsgr. frv. á þá leið, að sá styrkur, sem ætlazt er til, að ríkið veiti, til þess að sjúkrahús geti staðið straum af utanhéraðssjúklingum, næði ekki til sjúklinga frá þeim héruðum, sem gætu átt kröfu á því að gerast aðilar að sjúkrahúsunum. Þetta mundi valda því, að styrkur vegna utanhéraðssjúklinga yrði miklu minni. Það kemur að vísu ekki fram í brtt. og liggur ekkert fyrir um það hér, hve víðtækt þetta mundi verða í framkvæmd. Hv. 3. landsk. virðist líta þannig á, að t.d. varðandi sjúkrahúsið á Akureyri mundi þetta ná til Eyjafjarðarsýslu og a.m.k. þess hluta sýslunnar, sem er í sama læknishéraði og Akureyri. En mjög getur orkað tvímælis um það, og mér liggur við að halda, að samkvæmt þeirri reynslu, sem fengin er fyrir því, hve mörg héruð hafa. notað sjúkrahúsið á Akureyri mjög verulega, mætti teygja þetta ákvæði mjög mikið.

Vil ég því fyrir mitt leyti leggja áherzlu á, að þessu ákvæði verði ekki bætt inn í frv., heldur verði þessi brtt. frá hv. 3. landsk. felld, en mín brtt. samþ.