28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3374)

45. mál, dýralæknar

Sigurður Thoroddsen:

Það er aðeins vegna röksemdafærslu hv. 2. þm. N-M., að ég stend hér upp. Mér fannst hún dálítið skrítin: Vegna þess, að sem stæði væru ekki til menn í fleiri embætti en nú eru til laus og skipuð, þá bæri ekki að stofna nýtt dýralæknisembætti.

Ísland á að heita landbúnaðarland, og landbúnaðurinn byggist að langmestu leyti á skepnuhaldi. Okkur ber því skylda til að fjölga dýralæknum frá því, sem nú er. Þeir eru ekki nærri nógu margir. Það virðist því ekkert vera á móti því að fjölga dýralæknisembættum og bæta kjör dýralækna, þó að ekki væri til annars en örva unga menn til að leggja út á þá braut.