28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

45. mál, dýralæknar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Mér var kunnugt um þau atriði, sem hv. 2. þm. N-M. minntist á, en ég verð að vera á sama máli og hv. 11. landsk. Það eru of fáir dýralæknar í landinu og umdæmin of stór. Ég er einnig sammála honum um það, að ef Alþ. gæfi meiri gaum að störfum dýralækna, þá yrðu fleiri til að leggja námið fyrir sig en hingað til hefur verið.

Um þörfina fyrir að samþ. þetta frv. skal ég segja það, að ég sé ekki, að ástæður hv. 2. þm. N-M. þyrftu að vera þröskuldur í vegi, að ekki er hægt að fá menn í bili. Það líður að því, að völ verður á fleiri dýralæknum en nú er, og ég vona, að hv. 2. þm. N-M. vilji að því stuðla, að þeim fjölgi.

Þótt fleiri héruð en Vestmannaeyjar þurfi á dýralæknum að halda, þá hafa Eyjarnar sérstöðu. Þótt ferðalög séu víða erfið á Íslandi, eru þau sjaldnast óyfirstíganleg, nema þegar sjórinn skilur á milli.