15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (3410)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Sveinbjörn Högnason:

Mig undrar dálítið, að hv. 4. þm. Reykv. skuli halda, að hægt sé að telja mönnum trú um, að eitthvað sérstakt felist í þessu litla frv., sem ekki er þar. Það er ekki langrar stundar verk að lesa það yfir. Með leyfi forseta vil ég lesa upp ákvæðin, sem er aðeins ein gr., og sjá, hvar hv. 4. þm. Reykv. getur bent mér á, að þann tíma, sem fresturinn varir, skuli hlutaðeigendur fá þá vísitöluhækkun, sem þeir áttu að fá, hvernig sem samningar fara.

„Framkvæmd ákvæða í 3. málsgr. 4. gr. l. nr. 42 14. apríl 1943, um dýrtíðarráðstafanir, frestast um jafnlangan tíma að svo miklu leyti sem þau fara í bága við ákvæði laga þessara.“ Að lokum kemur 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hvar stendur, að síðar eigi að bæta bændum þær greiðslur, sem hér á að fresta, en þeim ber að fá, ef samkomulag næst ekki? Ég sé það ekki. Kannske hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. vilji ganga inn á, að fram verði borið og samþ. frv. um, að meðan samningar standa yfir, skuli fresta greiðslu 10% af launum og verðlagsuppbót til launamanna og verkamanna til þess að greiða fyrir samningum. Ef þeir eru til viðtals um þessi efni, þá er hægt að ræða við þá um það mál, sem þeir bera hér fram. En meðan hv. 4. þm. Reykv. er ekki búinn að sýna fram á, að allir standi jafnt að vígi og ekki sé gengið á rétt neins aðila um, að hann fái það, sem hann á að fá lögum samkvæmt, þá er ómögulegt að leggja fyrir menn greinilegra plagg en þetta frv., er sýnir og sannar, að þeir vilja ekki, að neinir samningar séu um þetta gerðir. Hér á að fresta samningum sex manna n., fresta samningum, sem gerðir voru milli þessara stétta um aðalvandamál dýrtíðarinnar, í fyrsta skipti sem þeir eiga að koma til framkvæmda gagnvart bændum, þá á að slá því á frest. Hvað mundu þeir segja, ef ætti að slá á frest greiðslu kaup- og verðlagsuppbótar til verkamanna svona lengi, án þess að nokkur trygging væri fyrir, að þeir fengju hana nokkurn tíma? Þetta liggur ljóst fyrir, og það þýðir ekki að segja okkur, að þetta sé meinlaus hlutur og að það sé síður en svo, að eigi að bregða samkomulagi, sem gert hafi verið. Málið er ekki svo loðið á þessari einu frvgr., að það sé hægt að vefa inn í hana marga aðra hluti, sem standi sem full trygging fyrir þessari greiðslu.