15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (3411)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er stutt aths. út af ræðu hv. þm. V.-Sk.

Í 3. málsgr. 1. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Framkvæmd ákvæða í 3. málsgr. 4. gr. l. nr. 42 14. apríl 1943, um dýrtíðarráðstafanir, frestast um jafnlangan tíma að svo miklu leyti sem þau fara í bága við ákvæði laga þessara“.

Ég ætla, að þetta orðalag sé ærið nóg til að sýna, að það er rétt, sem ég hef haldið fram, auk þess sem hv. l. flm., þótt ekki væri í þessari d., skýrði málið á þá lund, að frestunin væri um tiltekið tímabil og ef ekki næðist samkomulag um frávikningu frá fyrirmælum sex manna n., kæmu þau að sjálfsögðu til greina og verkuðu aftur fyrir sig fyrir það tímabil, sem frestunin gilti. Ég ætla, að það mundi ekkert verða þessu máli til tafar, þó að þeir, sem telja þetta ekki nógu skýrt, vildu orða það skýrar, og mundi ég ekkert á móti því hafa. Það er þess vegna auðvelt úr því að bæta með brtt. að svo miklu leyti sem menn þykjast ekki sjá, að þetta sé fullkomlega skýrt, en það tel ég vera tvímælalaust.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að víkja að ræðu hv. þm. Öllum þingheimi er kunnugt, að rætt hefur verið um allsherjar samkomulag innan þings út af verðlagi landbúnaðarafurða og kaupi verkafólks, og þarf ekki frekar út í það að fara nú, en þetta frv. á að flýta og greiða fyrir, að þetta samkomulag geti orðið.