15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3413)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Páll Zóphóníasson:

Mig langar til að fá eina skýringu hjá hv. 4. þm. Reykv. Það hafa alloft verið samþ. hér á þingi l. um að fresta framkvæmd ýmissa l., ævinlega til að spara fé. Mig langar til að vita, hvenær það hefur skeð, eftir að frestunin var útrunnin, að farið hafi verið að borga út fé fyrir þann tíma, sem frestunin gilti. Það hefur ævinlega verið ákveðið að fresta framkvæmd þessara l. til að spara þessi fjárframlög, og hefur engum dottið annað í hug en að l. væru upphafin þann tíma, því að allir sjá, hvaða sparnaður það hefði verið að fresta þessum fjárgreiðslum um ákveðinn tíma og verða svo að borga allt út eftir á. Hv. þm. verður því að fyrirgefa, þó að við lítum svo á, að þegar á að fresta vissum l., þá séu þau gerð óvirk meðan frestunin stendur, og það er alveg áreiðanlegt, að hingað til hefur ekki verið ymprað á því, að l., sem frestað hefur verið um ákveðinn tíma, séu látin verka aftur fyrir sig og ná yfir frestunartímabilið, þegar þau hafa komið til framkvæmda á ný. Ef þau l., sem hér er till. um að fresta, eiga þegar til kemur að verka aftur fyrir sig, þá þarf til þess meira en ræðu í Sþ., og það á að vera afsökun fyrir því, að flm. svíkst undan þeirri skyldu að koma á þingfund og skýra mál sitt, þegar það er til umr., að hann hafi flutt framsöguræðuna daginn áður í Sþ.