22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3440)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Hv. 1. flm. þessa frv. segir, að ekki sé ástæða til að ræða þetta mál mikið nú við l. umr., áður en það fer til n. Ég held, þvert á móti, að það sé nauðsynlegt fyrir þá n., sem fær það til meðferðar, að fram komi nú þau sjónarmið, sem í þessu máli eru, til þess að n. geti áttað sig á því, hvaða mál er hér á ferðinni. Enda mun líka til þess ætlazt samkvæmt þingsköpum, að áður en mál fari í n. séu þau rædd nokkuð almennt, til þess að n. geti áttað sig nokkuð á aðalsjónarmiðum þingmanna í sambandi við þau. Ég get þess vegna ekki komizt hjá því að svara hv. 1. flm. nokkrum orðum, þar sem hann fer með allmiklar rangfærslur í þessu efni. Hann segir, að ég leggi mjög mikla áherzlu á, að mjólkursölunefnd fái að halda áfram að hafa það vald, sem hún hefur í þessu efni. Ég spyr: Hvenær sagði ég það? Ég sagði það ekki, heldur hitt, að meðan l. eru eins og nú og tilgangur þeirra er sá sami sem í upphafi, að tryggja, að þeir, sem geta flutt óskemmda mjólk hér á markaðinn, geri það, þá vil ég fara eftir þeim l., en að Alþ. ákveði ekki sjálft, hve stór verðjöfnunarsvæði mjólkur skuli vera. En hvort það er mjólkursölunefnd eða annar aðili, sem það gerir, skiptir mig engu máli. Þ. e. a. s., það er mjög óheppilegt að skipa því með beinni lagasetningu, hvernig verðjöfnunarsvæðin eru ákveðin, heldur á að taka tillit til þess, sem farið var eftir við fyrstu lagasetningu um þessi mál. Þá var í þessu efni farið eftir aðstöðu manna um flutninga á þessari vöru til sölustaða og því, hver þörf var fyrir hana þar, sem hún var seld. — Þetta var það, sem ég sagði í minni ræðu, en ég lagði ekki áherzlu á, að það væri í höndum neinnar vissrar nefndar að ákveða verðjöfnunarsvæðin.

Þá sagði hv. 1. flm. einnig, að það væri langt frá því, að það væri sambærilegt við að gera allt landið að einu verðjöfnunarsvæði, þótt þessum 4½ sýslufélögum væri bætt inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. En á þessu er bara enginn eðlismunur, því að eins og sakir standa er þessum héruðum, sem um er að ræða í frv. að taka inn á verðjöfnunarsvæðið, alveg jafnómögulegt, vegna ónógs undirbúnings, að stunda mjólkursölu eins og Austfjörðum og Vestfjörðum. En ef t. d. Austur-Húnvetningar og Strandamenn geta komið sér upp mjólkurbúum, þá hygg ég, að engu verri skilyrði séu til þess að koma upp mjólkurbúi t. d. á Héraði. En nú er ekkert mjólkurbú, sem getur tekið við mjólkinni á þessum svæðum, sem í frv. er lagt til, að tekin verði inn á verðjöfnunarsvæðið, þannig að íbúum þeirra héraða kæmu þessi l., þó að frv. væri samþ., að engu gagni. — Þessi svæði koma því ekki til greina til að koma inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar fyrr en þau hafa mjólkurbú. En þegar þar eru komin upp mjólkurbú, og ef maður lítur þá svo á, að þessi svæði, sem í frv. er lagt til, að komi inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, verði tekin inn á það verðjöfnunarsvæði, — hvað væri það þá, sem gerði það að verkum, að mjólkurbúið á Sauðárkróki ætti ekki að vera þar líka? Ég sé engan eðlismun þar á.

Hv. 1. flm. segir, að betri flutningaskilyrði séu frá þessum stöðum til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en annars staðar af landinu. Ég vil benda á, að í Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands eru engu verri skilyrði til flutninga á mjólk til Reykjavíkur en t. d. úr Langadal í Austur-Húnavatnssýslu.

Vitanlega er undirstaðan undir því, að hægt sé að hafa sölu á mjólk og mjólkurvörum, sú, að komið sé upp mjólkurbúum, og á því byggist öll löggjöfin um mjólkursöluna. Og þegar mjólkurbú eru komin upp, þá er kominn tími til að athuga, hvernig skuli haga verðjöfnun, og það er í raun og veru ekki kominn tími til að athuga það fyrr.

Hv. 1. flm. sagði, að ömurlegt væri til þess að vita, að þar sem skortur væri á smjöri, þá væri jafnframt einstökum mönnum veittur einkaréttur til að selja það. Hvaðan hefur þessi hv. þm. þetta? Mér er ókunnugt um, að nokkur hópur manna hér á landi hafi nokkurn einkarétt til smjörsölu. Ég veit ekki annað en að það sé með lögum tryggt, að bændur fái nákvæmlega sama verð fyrir smjör, hvaðan sem er af landinu, og þó er skortur á því. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, ef hv. þm. A-Húnv. hefur hugsað svo lítið um þetta, að hans umbjóðendur þurfi þess vegna að verða út undan í þessu efni. Ef svo er, er það líklega af því, að hann er ekki nógu árvakur fyrir sína umbjóðendur. — Mönnum er tryggt sama verð fyrir smjörið, hvaðan sem það er, enda hafa menn komið sér upp smjörsamlögum til þess að geta selt smjör.

Annars hélt ég, að hv. flm. þessa frv., og hv. þm. Snæf. er annar þeirra, væri nokkuð kunnugt um það, — og þeir hafa látið orð um það falla, — að því hefur verið haldið fram, að það væri ekki næg vöruvöndun í sambandi við mjólkursöluna, sem stafaði af því, hve mjólk væri flutt langt að til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Og frá því sjónarmiði sé ég ekki, að það ætti að vera forsvaranlegt, eins og flutningum er háttað um landið, að stækka verðjöfnunarsvæðið eins og hér er farið fram á, ef ætti að vera um að ræða að flytja neyzlumjólk frá þessum stöðum, sem hv. flm. vilja bæta inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Ef frv. þetta ætti fram að ganga, mundi hver einasti þm. úr sveitakjördæmi koma með brtt. við það um að sitt umdæmi yrði sett inn á verðjöfnunarsvæði. Og þá væri skynsamlegra að kveða svo á í frv. strax í fyrstu: Allt landið skal vera eitt verðjöfnunarsvæði.