22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (3441)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Samkvæmt l. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o. fl. er landinu skipt í verðjöfnunarsvæði, og öllum utan þeirra svæða er óheimilt að selja mjólk og rjóma á þeim svæðum. Nú er það í höndum mjólkursölun. að sjá um framkvæmd á þessu.

Við flm. þessa frv. álítum rétt að stækka með l. þessi verðjöfnunarsvæði, en láta ekki eina sérstaka n. hafa alræðisvald í þessu efni. — Hv. þm. V-Sk. sagði, að einum hreppi, Eyjahreppi í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og tveimur hreppum í Skaftafellssýslu hefði verið bætt inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og nú síðast einnig Miklaholtshreppi. Við flm. álítum fulla ástæðu til að halda áfram á þessari braut. En hins vegar er full ástæða til að halda fram, að stækkun á verðlagssvæðinu hafi ekki alltaf byggzt á réttu mati og málefnaafstöðu einni saman. Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hafa nokkrir hreppar leitað eftir að komast inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en ekki fengið því framgengt. En vorið 1942 brá svo við, að tveim hreppum í Vestur-Skaftafellssýslu var bætt inn á verðjöfnunarsvæðið, e. t. v. vegna þess, að hv. þm. V-Sk. var að bjóða sig fram þar til þingmennsku — hann getur sjálfur upplýst það. En við flm. frv. viljum ekki, að stækkun á þessu svæði sé af handahófi gerð eða láta geðþótta eins manns ráða því, hvaða bændur eiga að vera á verðjöfnunarsvæðinu hér, heldur láta það mótast af því, hvort þeir hafa aðstöðu til þess að koma mjólk sinni á markaðsstað vegna samgangna. Þess vegna er það vitleysa, sem hv. þm. V-Sk. heldur fram, að ef farið væri eftir till. okkar flm. í frv., þá yrði afleiðingin sú, að allt landið skyldi gert að einu verðjöfnunarsvæði, því að þá mundu allir hv. þm. úr sveitakjördæmum koma með brtt. við frv. um að taka sín umdæmi inn á verðjöfnunarsvæði. Hv. þm. V-Sk. segir: Hvers vegna eiga Austfirðingar og Vestfirðingar þá ekki að koma líka inn á verðjöfnunarsvæði, ef samþ. á þetta frv.? Vitanlega er það af því, að þó að Borgfirðingar, Mýramenn, Snæfellingar, Dalamenn, Húnvetningar og bændur austanfjalls hafi aðstöðu til að flytja mjólk hér á markaðinn í Reykjavík og Hafnarfirði, þá eru samgöngur milli Austfjarða og Vestfjarða annars vegar og Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hins vegar svo ákaflega miklum erfiðleikum háðar, að ekkert líkt hagar til um Austfirði og Vestfirði annars vegar í þessu efni og þau svæði hins vegar, sem við leggjum til í frv., að tekin verði inn á verðjöfnunarsvæðið. Það, sem við flm. því miðum við, er, hvaða sveitir hafa aðstöðu til að koma mjólk og mjólkurvörum hingað til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Hv. þm. V-Sk. taldi undarlegt, að við, sem teldum ekki nóga vöruvöndun á mjólk og mjólkurvörum, sem seldar eru hér í Reykjavík og Hafnarfirði, vildum samt stækka verðjöfnunarsvæðið. Ég hef aldrei haldið því fram, að þeir ágallar, sem hafa verið á vöruvöndun mjólkur, stöfuðu fremur af því, að mjólk væri flutt nokkrum km. lengra heldur en af öðrum ástæðum. Og ég hef fyrir satt, að það skipti tiltölulega litlu, hvort mjólkin er flutt 10, 20 eða jafnvel 30 km. lengra að eða ekki, og hef þar fyrir mér umsögn kunnugra manna. En í sambandi við það, að mjólkurskortur hefur stundum verið í Reykjavík og Hafnarfirði, þá er ekkert ósamræmi í því, þó að við hinir sömu menn, sem kvartað höfum um hann, leggjum til, að stækkað verði verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarf jarðar.

Loks er eitt, sem ég vil minnast hér á. Það er sú staðhæfing hv. þm. V-Sk., að tilgangslaust sé að færa út verðjöfnunarsvæðið, vegna þess að mjólkurbú séu ekki fyrir hendi á þeim svæðum, sem við leggjum til að tekin verði inn á verðjöfnunarsvæðið, og mjólkurbú, sem á verðjöfnunarsvæðinu eru, séu yfirfull og geti ekki tekið á móti meiri mjólk. Ég hef aflað mér upplýsinga um mjólkurbúið í Borgarnesi, sem Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla mundi leita til fyrst. Og það eru staðlausir stafir, að það sé yfirfullt. Og ekki er það heldur langt frá Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu til þessa bús, það er ekki nema tiltölulega örstutt bílferð. Þess vegna er ræða hv. þm. V-Sk., að því er snertir þetta svæði, alveg út í loftið. En ég er minna kunnugur öðrum stöðum í þessu efni, sem frv. tekur til.