22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (3442)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Vegna þess að hv. þm. Snæf. virtist þurfa að grípa til einhverra dylgna í minn garð til þess að reyna að rétta hlut sinn gagnvart þessu frv., get ég ekki komizt hjá því að svara honum nokkrum orðum. — Hann spyr mig, hvernig standi á því, að tveir hreppar í Vestur-Skaftafellssýslu hafi verið teknir inn á verðjöfnunarsvæðið fyrir ekki löngu, og virðist álíta, að það hafi verið gert af einhverjum sérstökum ástæðum öðrum en því, hvernig þetta svæði lægi við samgöngum eða hvort mjólkurbú væri þar fyrir hendi. Það er upplýst, að frá því fyrst er bændur í Mýrdal fóru að reyna að koma mjólk til sölu í mjólkurbú Flóamanna, reyndi ég að stuðla að því, að þeir gætu fengið það. En mjólkurbú Ölfusinga gat ekki tekið á móti meiri mjólk. Það stóð aldrei á mjólkurbúi Flóamanna um að taka á móti mjólk úr Mýrdalnum, þegar búið væri að stækka mjólkurbúið. Og það stóð ekki heldur á mjólkursölunefnd að taka Mýrdalinn inn á verðjöfnunarsvæðið, þegar þeir gætu haft aðgang að mjólkurbúi. Þetta hygg ég, að sé bókað, bæði í gerðabók mjólkursölunefndar og hjá mjólkurbúi Flóamanna. Og þegar þeir í Mýrdalnum höfðu aðgang að mjólkurbúi, þá voru þessir hreppar teknir inn á verðjöfnunarsvæðið og líka hreppur í Hnappadalssýslu. — Þetta sýnir vel, að það er ekki til neins að taka önnur svæði inn á verðjöfnunarsvæðið en þau, sem hafa skilyrði til þess að flytja mjólkina í mjólkurbú, sem eru löggilt af ríkisvaldinu, sem geti unnið úr mjólkinni. Og hvorki hv. þm. A-Húnv. né hv. þm. Snæf. ganga að því gruflandi, og þó að þetta frv. yrði að l. í dag, kæmi það samt ekki að hinu minnsta gagni fyrr en menn á viðkomandi stöðum eru búnir að koma upp mjólkurbúum. Og þó að hv. þm. Snæf. segi, að mjólkurbúið í Borgarnesi sé ekki yfirfullt, — og það getur verið að það sé rétt að því er snertir nokkurn tíma úr árinu og það geti þá tekið á móti meiri mjólk, — þá verður að miða við það, hvað mjólkurbúin geta tekið á móti, þegar mest er mjólkursalan. Og mjólkurbúið í Borgarnesi vill stækka stöð sína, en hvers vegna vill það það, ef stöð þess er meira en nógu stór? Mjólkurbúin hafa verið í hröðum vexti og þó afkasta þau þrefalt til fjórfalt meira en fyrst, og vegna þess, hve mjólkurframleiðslan á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar vex ört, eiga mjólkurbúin þar erfitt með að taka á móti allri framleiðslunni.

Hv. þm. Snæf. sagði, að verðjöfnunarsvæðið eigi að mótast eftir því, hvernig aðstaða manna er til þess að koma mjólkinni á sölustað, þ. e. a. s. af samgöngunum, — og þá líklega einum, — og að þessi svæði, sem um er að ræða í frv., hafi beztu flutningamöguleika. En það er ekki rétt. Mörg héruð hafa eins góða flutningamöguleika og þessi. Ég sé ekki neinn mun á því að fara úr þessum svæðum og hinu, að fara með mjólk úr Skagafirði, Strandasýslu og Skaftafellssýslu, þar sem verðjöfnunarsvæðið nær ekki yfir. Það er vitanlegt, að í þessu efni eru samgöngurnar ekki það atriðið lengur, sem allt veltur á. Hinu veltur meira á, að mjólkurbú séu fyrir hendi, sem geti tekið á móti mjólkinni, svo að hægt sé fyrst og fremst að draga nóga neyzlumjólk á markaðinn og síðan til þess að vinna úr afganginum. Og allt landið hefur jöfn skilyrði til þess að flytja unna mjólk á markaðinn. Og ef bú yrðu sett upp á þessum stöðum, sem í frv. er lagt til, að bætt verði inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, yrðu það vinnslubú, en sennilega að litlu leyti mjólkurbú.