22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (3444)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég verð að kveðja mér hér hljóðs vegna þeirrar fyrirspurnar, sem hv. þm. Vestm. beindi til mín um það, hvernig á því stæði, að ekki væri til nægilegt íslenzkt smjör á markaðinum. Ég ætla, að hér um ráði það eitt, að eftirspurn og framboð standist ekki á, þannig að framboðið fullnægi ekki eftirspurninni. Ég ætla, að ég geti fullyrt það, að það, að mjólkurbúin sitji með miklar smjörbirgðir eða að smjörið sé selt til setuliðsins sé algerlega tilhæfulaust. Það virðist eingöngu ástæðan fyrir því, að ekki er framleitt eins mikið smjör og neytendur vilja kaupa, að framleiðendur telja sér hagkvæmara að vinna að öðru en smjörframleiðslu, og það er af því, að það er ekki búið þannig að íslenzkum framleiðendum, að þeir telji það svara kostnaði að framleiða smjör.