22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (3449)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Hv. þm. Vestm. sagði, að það væri óþolandi ástand, að ekki fengist smjör hér í landinu um langan tíma, og má segja það um fleiri framleiðsluvörur, sem ekki fást, að það þurfi úr því að bæta. En ég verð að segja, að mér finnst það nokkuð einkennilegt, þegar menn tala þannig, að þeir kvarta í öðru orðinu yfir því, að varan fáist ekki og í hinu orðinu, að varan sé óhæfilega dýr, og það menn, sem fylgja þeirri skoðun í framleiðslumálum, að verðlag og eftirspurn eigi að fylgjast að, því að ef það lögmál fær að ráða, skyldi maður ekki ætla, að það þyrfti að vanta smjör í landinu, ef það væri borgað nógu hátt samanborið við aðrar framleiðsluvörur. Ég get fullvissað hann um, að mér er ókunnugt um, að til séu nokkur forðabúr, þar sem smjör er geymt, og hefur aldrei verið. Ég veit ekki betur en að það hafi verið selt jafnóðum, sem selt hefur verið, nema fyrir tveimur árum. Þá var fyrirsjáanlegur smjörskortur, og var þá nokkuð lagt fyrir af smjöri og geymt handa sjúkrahúsum þann tíma, sem skorturinn var mestur. Síðan farið var að flytja inn útlent smjör, hefur mjólkursamsalan ekki talið sér bera skyldu til þess öðrum fremur að sjá þessum stofnunum fyrir smjöri, þó að vitanlega hafi þær þess mesta þörf.

Hv. þm. A-Húnv. talaði mjög mikið um það, að mjólkursamsalan megi ekki hafa einkarétt til að ákveða þetta og þetta. Það má vitanlega gefa því þetta nafn. Ég gæti á sama hátt sagt, að ég væri á móti því, að nýbýlastjórn, sem hv. þm. á sæti í, hefði einkarétt til að ákveða, hvaða bændur eigi að fá byggingarstyrk. Ég gæti því alveg trúað því, að hann kæmi með till. um, að það skuli vera löggjafarvaldið, sem ákveði, að allir bændur, sem sæki um styrk, fái hann, ef hann telur það nauðsynlegt að afnema einkaréttinn að fullu. Ég hef litið svo á, að þegar Alþ. hefur falið framkvæmdanefnd að gera eitthvað fyrir sig, sé það ekki gert til að veita henni einkarétt, heldur sé það gert af því að Alþ. treysti sér ekki til þess og beri þá miklu fremur að líta á þá, sem verkið framkvæma, sem þjóna, og þótt hv. þm. A-Húnv. hafi tillögurétt um það, hvaða bændur fái byggingarstyrk, neita ég því eindregið, að hann hafi nokkurn einkarétt til að ákveða, hvaða bændur það eiga að vera, heldur eigi hann að vera sem þjónn löggjafarvaldsins, en ekki sem herra með einkarétt í höndum. Vænti ég, að hann skilji ekki aðstöðu sína á þann veg. Ég veit ekki til, að til séu lagafyrirmæli, sem banna mönnum að selja mjólk. Hitt er annað mál, hvernig á að koma mjólkursölunni fyrir. Það er skipulagsatriði.

Ég vil benda hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. Snæf. á, að flutningamöguleikar frá þeim héruðum, sem þeir tala um, eru ekki betri en svo, að mjólkurbúið, sem þeir hafa augastað á, en ég veit, að er of lítið, getur rétt með naumindum fullnægt skilyrðum mjólkurl. vegna flutningsörðugleika frá Borgarnesi. Þetta er vitanlegt. Hvað mundi þá fyrir framleiðendur í 200 km. fjarlægð yfir snjóþungar heiðar?

Það eru því hvorki flutningsskilyrði né mjólkurbú fyrir hendi, og ef á að veita einum framleiðanda rétt á að vera á einu verðlagssvæðinu, mætti líka vera eitt svæði fyrir allt landið. Ég skal ekki draga úr því, ef þeir, sem vit hafa á, telja, að það sé framkvæmanlegt, en ég er á móti misrétti í þessu efni.