22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3453)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Hv. þm. Hafnf. spurðist fyrir um það, hvenær n. hefði síðast komið saman á fund. Það mun vera á að gizka hálfur mánuður síðan. Út af hinu atriðinu, hvenær n. hafi tekið ákvörðun um innflutning á smjöri, get ég lýst yfir því, að þegar byrjað var á innflutningi smjörs í ársbyrjun 1943, þá var leitað til n. og þau skilyrði þá sett, sem ég hef lýst.

Þá vil ég koma að því, sem hv. þm. Vestm. hefur rætt um, og í því sambandi segja þetta: Er það ekki venjulegt og alls staðar gildandi regla, að menn leggi það frekast fyrir sig, sem þeir hafa bezt upp úr? Og úr því að ekki er framleitt eins mikið og fólk vill nota, þá telur fólk í landinu sér hagkvæmara að framleiða annað en smjör. Það ætti að vera öllum ljóst, að þetta er ástæðan fyrir því, að framleiðslan er ekki nógu mikil til að fullnægja þörf landsmanna.