22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Þegar l. um sölu mjólkur voru í upphafi sett, var ætlazt til þess, að verðlagssvæðið væri ákveðið af samsölustjórninni, en síðar, að það væri mjólkursölun., sem ákvæði þetta. Þegar samningar tókust í fyrra var mér sagt, að fundur hafi verið haldinn í mjólkursölun. og henni hefði verið tilkynnt, að hennar hlutverk væri úr sögunni. Þetta er ekki það, sem l. hafa ætlazt til um mjólkursölun. Nú er hér upplýst af einum nm., að enginn fundur hafi verið haldinn frá í fyrra um þetta leyti og þar til fyrir hálfum mánuði, að hæstv. ráðh. upplýsir, að fundur hafi verið haldinn.

Það má segja, að l. um sölu mjólkur og rjóma mæli svo fyrir, að ekki megi flytja inn mjólkurafurðir nema með leyfi mjólkursölunefndar og undir eftirliti hennar. Hún hafi eftirlit með, hve mikið er flutt inn af mjólk, hvernig henni er dreift og um allt skipulag á sölunni. Mér finnst eins og hér vanti eitthvað, sem ég fékk ekki vel samhengi í, en ég er þó ánægður, að ég fékk það upplýst, sem ég hef haft hugboð um fyrir fram, að mjólkursölunefnd hafi ekki starfað allt árið. Mér finnst enn meiri ástæða til nú en áður, að þessi n. starfi, því að hún á samkv. 9. gr. l. frá 1931 að sjá um og hafa eftirlit með, að gætt sé fyllstu hagsýni og sparnaðar í rekstri mjólkurbúanna og að reksturskostnaðurinn fari ekki úr hófi fram. Þegar eins og nú bændum er tryggt vist verð fyrir mjólkina, hver sem kostnaðurinn kann að verða, þá finnst mér sannarlega ekki minni þörf en áður á, að þessi n. sé starfandi og vel vakandi.

Mér skilst á öllu, að mjólkursamsalan, sem starfar fyrir þetta verðjöfnunarsvæði, hafi að meira eða minna leyti tekið í sínar hendur framkvæmd þessara mála og að mjólkursölunefnd, sem á að kontrólera fyrirkomulag á allri samsölustjórn í landinu, hafi verið sett út úr spilinu á einhvern hátt og mjólkursamsölustjórnin geti farið sínu fram, eftir því sem henni sýnist. Ég vil aðeins láta þetta koma fram, því að það er ekki alveg þýðingarlaust í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir.