12.02.1945
Neðri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Þar sem mjög langt er liðið frá 1. umr. þessa máls, vildi ég leyfa mér að rifja upp meginefni frv. og þau rök, sem liggja til þess, að það er flutt.

Svo er ákveðið í mjólkursölulögunum, að yfirstjórn mjólkurmálanna hefur í hendi sér, hversu verðjöfnunarsvæðum skal háttað. Frv. fer fram á, að þessu verði breytt og verðjöfnunarsvæðin stækkuð. Okkur flm. þykir eðlilegt, að Alþ. sjálft ákveði um svo mikilsvert mál sem þetta er, en þetta vald sé ekki falið einni nefnd. Það getur naumast talizt réttlátt, að sumum sveitum sé bannað að selja mjólk hingað til bæjarins, einkum þegar þess er gætt, að víða er fjárstofninn fallinn og eina leiðin til að halda áfram búrekstri virðist vera að koma upp kúabúum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt, sem mþn. leggur til, að fyrirbyggja skuli mjólkurskort með því að stækka verðjöfnunarsvæðin. Um það atriði, hvort löggjafarvaldið skuli ákveða þetta sjálft, skal ég ekki vera margorður, en ég er þó þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé, að Alþ. ákveði þetta sjálft, án þess að ég beini nokkrum ásökunum í garð mjólkursölunefndar.

Varðandi mjólkurskortinn hefur verið bent á það, að ósamræmis gæti hjá flm. þessa frv., er þeir tali annars vegar um gallaða mjólk, en hins vegar um of lítil verðjöfnunarsvæði. Mér er það ljóst, að mjólkin er einatt léleg, en mér hefur ekki komið til hugar, að gæði hennar fari eftir því, hvort hún er flutt 5–10 km. lengra eða skemmra, þar kemur annað til greina. Þess vegna gætir hér engra mótsagna.

Hv. þm. Mýr. heldur því fram, að í okkar frv. sé gengið á svig við það ákvæði mjólkurlaganna, að mjólkin skuli flutt daglega óskemmd til bæjarins. Hann segir, að ef halda eigi við þetta ákvæði, sé ekki unnt að stækka verðjöfnunarsvæðin nema um Dalasýslu og hluta af Snæfellsnesi. Hv. þm. A-Húnv. hefur bent á, að frá Blönduósi er ekki nema 4 klst. akstur til Borgarness, og úr mínu kjördæmi er ekki nema 2½–3 klst. akstur í Borgarnes. Þess vegna er hér um algert ranghermi að ræða. Úr öllum þessum héruðum er hægt að flytja mjólk daglega.

Hv. þm. Mýr. lét í ljós þá skoðun, að ef þetta frv. yrði samþ., mætti alveg eins láta verðjöfnunarsvæði ná kringum allt landið. Þetta er vart svaravert eins og samgöngum er nú háttað um Vestfirði og Austfirði, enda er þetta sagt út í loftið. Það er rétt, að það er meginatriði, að mjólkin sé ný og vel með farin, þegar hún kemur til bæjarins, en þeim skilyrðum er hægt að fullnægja, þótt sú leið verði farin, sem frv. fer fram á.

Á það hefur verið bent, að mjólkurbú vantaði. Ég upplýsi eftir viðtali við mjólkurbússtjórann í Borgarnesi, að þetta er rangt. Mjólkurbúið þar getur afkastað miklu meiru en það nú gerir.

Ég tel, að óþarft sé að ræða þetta öllu frekar. Það hefur verið nægilega rökstutt af hv. þm. A-Húnv. En ég vil undirstrika það, að ég tel eðlilegt, að verðjöfnunarsvæðin séu lögfest og að bændum, sem misst hafa fé sitt, sé ekki bannað að framleiða mjólk á sama tíma og mjólkurskortur er ríkjandi hér í bænum. Það má vera, að þetta mál hafi ekki mikið fylgi, enda fer oft svo um rétt mál í upphafi, en því verður haldið áfram, unz það hefur framgang. Svo mikið hefur þó nú þegar áunnizt, að nú viðurkennir hv. þm. Mýr., að réttmætt og fært sé að bæta nokkrum sveitum við. Ef svo miðar hin næstu þing, þá er ekki unnið fyrir gýg.